Stök frétt

Mynd: Anton Brink

Samstarfsverkefnið Allan hringinn var kynnt á viðburði í Góða hirðinum í gær 6. júní. Markmið verkefnisins er að kynna þær breytingar sem eiga sér stað í úrgangsmálum árið 2023 í kjölfar gildistöku hringrásarlaganna um áramótin síðustu. Undir slagorðinu „Betur gert, flokkað og merkt“ eru landsmenn hvattir til að taka á móti þessum jákvæðu breytingum og vera virkir þátttakendur í að mynda hringrásarhagkerfi á Íslandi. 

Hópurinn sem stendur að verkefninu samanstendur af stofnunum, sveitarfélögum, rekstraraðilum í úrgangsþjónustu og hagsmunasamtökum í atvinnulífinu. Þetta er í fyrsta skipti sem allir þessir aðilar hafa starfað saman og sameinar þannig verkefnið krafta allra þeirra sem starfa að úrgangsmálum á landsvísu.

Mynd: Anton Brink
Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri loftslags og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun, ávarpar gesti

Net margra þráða sem tengjast

Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri á sviði loftslags og hringrásarhagkerfis, ávarpaði gesti og nefndi meðal annars að enginn talaði fyrir línulegu hagkerfi lengur, hvorki fyrirtæki né einstaklingar, og verkefni framtíðarinnar væri að varða leiðina þangað. Umbreyting í hringrásarhagkerfi sé lærdómsferli og allir væru að feta sig eftir því en á sama tíma yrði að tryggja gagnsæi í ferlum og miðla árangri með aðgengilegum hætti. Hringrásarhagkerfið væri net þar sem margir þræðir tengjast og verður sterkara eftir því sem það þéttist. 

Áhugi almennings á stöðu mála í umhverfismálum væri mikill sem sýnir mikinn metnað til að gera vel. Ef árangur væri skilgreindur út frá því hvort þrýstingur á breytingar komi jafnt frá almenningi, atvinnulífi og löggjafanum þá værum við á réttri leið. 

Hver Íslendingur henti 667 kílóum árið 2021

Táknrænt úrgangsfjall var til sýnis á viðburðinum sem endurspeglaði þau 667 kg af heimilisúrgangi sem hver Íslendingur lét frá sér að meðaltali árið 2021. Ísland er í sjöunda sæti yfir þær þjóðir innan EES sem henda mestu magni af heimilisúrgangi. Úrgangsfjallið mun standa í Góða hirðinum til mánudagsins 12. júní. 

Mynd: Anton Brink Mynd: Anton Brink
Nói Síríus kynnti umbúðir með samnorrænu merkingunum sem koma á markaðinn fljótlega

Ákall til fyrirtækja

Með tilkomu hringrásarlaganna verður skylt að nota samnorrænar flokkunarmerkingar á tunnur og ílát um allt land. Sömu merkingar geta fyrirtæki nýtt sér til að merkja umbúðir. Nói Siríus er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa tekið skrefið og endurhannað umbúðir sínar með þessar merkingar í huga til að auðvelda neytendum að flokka rétt. Helga Beck, markaðsþróunarstjóri Nóa Siríus, sagði frá þeirri vegferð sem fyrirtækið er í, bæði hvað varðar betri merkingar og umhverfisvænni umbúðir. Fyrirtækið var einnig með sýnishorn af nýjum umbúðum á viðburðinum.

Hópurinn sem stendur að baki verkefninu Allan hringinn, fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóði, Endurvinnslunni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, SORPU, Terra umhverfisþjónustu, Íslenska gámafélaginu, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Myndir með frétt: Anton Brink