Af öryggisástæðum hefur leiðinni niður í Grænagil á Laugahringnum við Landmannalaugar verið breytt lítillega.
Mikil hætta er af grjóthruni úr bröttum hraunkantinum á þeim stað sem gengið hefur verið niður í gilið. Í sumar hefur stígurinn hrunið og hreyfing sést á stórum steinum við stíginn.
Breytingin þýðir að nú er gengið ofan á hrauninu um 150 metra lengra til austurs áður en farið er niður í gilið sjálft, samanborið við eldri leiðina. Starfsfólk Umhverfisstofnunar hefur þegar stikað nýju leiðina.
Stígurinn hefur skolast í burt síðustu misseri og stórgrýti er við það að falla niður / Mynd: Umhverfisstofnun
Síðustu vikur hefur jafnframt verið unnið að gerð stígs á leiðinni í gegnum Laugahraun niður frá Brennisteinsöldu að Grænagili. Leiðin hefur á þessum slóðum verið afar stórgrýtt og gróf, ásamt því að fjölmargir slóðar hafa myndast sökum mikillar umferðar og álags.
Nýi stígurinn er að öllu leyti unninn úr efnivið á svæðinu og með handafli. Það er gert til þess að valda lágmarksraski.
Verktaki verður að störfum fram í september og er þá von að um fyrstu 500 metrarnir frá Brennisteinsöldu niður að Grænagili verði orðnir tilbúnir.
Nýja leiðin er stikuð og kemur niður í gilið um 150 metra austan við gömlu leiðina / Mynd: Umhverfisstofnun