Losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands stóð í stað milli áranna 2021 og 2022. Losun sem fellur undir staðbundinn iðnað innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (e. ETS) jókst um 2% á sama tímabili. Losun frá alþjóðasamgöngum jókst umtalsvert en sú losun fellur að hluta til innan ETS kerfisins.
Þetta sýna bráðabirgðagögn [1] um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
Bráðabirgðaniðurstöður um losun vegna landnotkunar (e. LULUCF) árið 2022 liggja ekki fyrir.
Mynd 1: Losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands og frá ETS kerfinu frá 2005 til 2022.
Losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands árið 2022 var 2803 þús. tonn CO2-íg. Losunin hefur dregist saman um 12% frá árinu 2005 en stóð í stað [2] milli áranna 2021 og 2022.
Markmið ríkisstjórnarinnar er að losun á beinni ábyrgð Íslands dragist saman um 55% árið 2030, miðað við losun árins 2005, sjá Mynd 2. Þegar litið er til sameiginlegra skuldbindinga ESB, Íslands og Noregs er þó ekki gert ráð fyrir jafnmiklum samdrætti losunar á beinni ábyrgð Íslands. Nánari umfjöllun um alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og uppfærslu þeirra í tengslum við sameiginleg markmið ESB, Íslands og Noregs má lesa hér.
Mynd 2: Losun á beinni ábyrgð Íslands; 55% samdráttarmarkmið sem kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Losunarflokkur | Breyting | Þús. tonn CO2-íg. | % | Skýring |
---|---|---|---|---|
Fiskimjölsverksmiðjur | Aukning ↑ | 57 | 485 | Skerðing á raforku |
Rafmagn og húshitun | Aukning ↑ | 7 | 230 | Notkun varaaflsstöðva |
Vegasamgöngur | Aukning ↑ | 66 | 8 | Aukin eldsneytiskaup |
Jarðvarmavirkjanir | Aukning ↑ | 11 | 6 | Náttúrulegur breytileiki |
Landbúnaður | Samdráttur ↓ | 15 | 2 | Fækkun sauðfjár |
Fiskiskip | Samdráttur ↓ | 90 | 16 | Minni eldsneytiskaup hérlendis |
Kælimiðlar | Samdráttur ↓ | 29 | 18 | Útfösun eldri kælimiðla |
Tafla 1: Helstu breytingar í losun á beinni ábyrgð Íslands milli 2021 og 2022.
Mynd 3: Hlutfallsleg losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2022.
Árið 2022 var losun frá staðbundnum iðnaði innan ETS kerfisins 1875 þús. tonn CO2-íg. Losunin hefur aukist um 120% frá árinu 2005 og jókst um 2% frá fyrra ári. Milli áranna 2021 og 2022 var mest aukning í losun vegna aukinnar kísilmálmframleiðslu en sú losun jókst um 9%.
Losunarflokkur | Breyting | Þús. tonn CO2-íg. | % | Skýring |
---|---|---|---|---|
Kísilmálmur | Aukning ↑ | 41 | 9 | Framleiðsluaukning |
Tafla 2: Helstu breytingar í losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir ETS kerfið á milli 2021 og 2022.
Losun vegna alþjóðasamgangna [3] jókst um 95% milli áranna 2021 og 2022 í kjölfar afléttinga ferðahafta vegna heimsfaraldurs Covid-19. Þó hefur losun frá alþjóðasamgöngum í heild ekki náð sömu hæð og fyrir heimsfaraldur. Losunin nam rúmlega 1 milljón tonna CO2-íg. árið 2022 á meðan hún var rúmlega 1,5 milljón tonna CO2-íg. árið 2018.
Þess ber að geta að losun frá alþjóðasamgöngum fellur ekki undir beina ábyrgð Íslands en hluti hennar fellur undir ETS kerfið. Umfang alþjóðasamgangna hefur þó óbein áhrif á losun á beinni ábyrgð Íslands, t.a.m. þegar kemur að losun frá vegasamgöngum og úrgangsmyndun.
Losunarflokkur | Breyting | Þús. tonn CO2-íg. | % | Skýring |
---|---|---|---|---|
Alþjóðaflug | Aukning ↑ | 321 | 77 | Aukning ferðamanna |
Alþjóðasiglingar | Aukning ↑ | 189 | 153 | Auknar siglingar |
Tafla 3: Helstu breytingar í losun frá alþjóðasamgöngum milli 2021 og 2022.
[1] Umhverfisstofnun skilar bráðabirgðaniðurstöðum til Evrópusambandsins. Ekki liggja fyrir ný gögn um alla geira í losunarbókhaldi og því viðbúið að tölurnar taki breytingum fyrir endanleg skil þessara gagna 15. mars 2024.
[2] Breyting í losun á beinni ábyrgð Íslands milli áranna 2021 og 2022 er innan við 0,1% - þegar tekið er tillit til skekkjumarka er því ekki unnt að fullyrða um samdrátt eða aukningu.
[3] Alþjóðasamgöngur skiptast í alþjóðaflug og alþjóðasiglingar. Losun er reiknuð út frá eldsneyti sem keypt er á Íslandi á flugvélar og skip sem eru á leið frá Íslandi.