Stök frétt

Niðurstöður mælinga á styrk flúors í grasi í Reyðarfirði sumarið 2023 gefa til kynna að meðalstyrkur flúors í grasi sé hærri í ár en fyrri ár, að undanskildu árinu 2021 þegar styrkurinn mældist hærri.

Meðalstyrkur flúors í grasi utan þynningarsvæðis í ár reyndist vera 50,2 µg/g.

Samkvæmt vöktunaráætlun, sem Alcoa Fjarðaál leggur fram og er samþykkt af Umhverfisstofnun, er grasi safnað á 30 sýnatökustöðum utan þynningarsvæðis með reglubundnu millibili yfir sumarmánuðina. Styrkur flúors er mældur í öllum sýnum.

Flúor í andrúmslofti sest að mestu leyti utan á gróður sem skolast svo niður í jarðveg í rigningum. Óvenju heit, þurr og stillt sumur geta þannig skýrt aukna uppsöfnun flúors í grasi í firðinum.

Losna má við stóran hluta flúors af yfirborði matjurta, eins og t.d. salats og berja, með því að skola vel af vatni fyrir neyslu.

Umhverfisstofnun fylgist náið með þróun á uppsöfnun flúors á svæðinu, rýnir niðurstöður mælinga og kallar eftir áliti annarra sérfræðinga og stofnana eftir því sem við á.