Stök frétt

Breska stjórnarráðið / Mynd: Fengin af gov.uk

Þorbjörg Sandra Bakke og Birgitta Steingrímsdóttir, sérfræðingar í teymi hringrásarhagkerfis, miðluðu reynslunni af Grænum skrefum á Íslandi fyrir um 60 starfsmenn breska stjórnarráðsins (e. Cabinet Office). Fundurinn var í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrr í haust kynntu þær Grænu skrefin í Hvíta húsinu í Bandaríkjunum. Í kjölfarið höfðu fulltrúar breska stjórnarráðsins samband og vildu heyra meira af verkefninu.

Hvernig er hægt að fá starfsfólk með?

Starfsfólk breska stjórnarráðsins hafði sérstakan áhuga á því að heyra okkar reynslu af því að fá starfsfólk til að taka virkan þátt í umhverfisstarfi vinnustaðanna.

Birgitta og Þorbjörg miðluðu bæði af eigin reynslu og því sem sérfræðingar benda á að sé vænlegt til þess að fá starfsfólk með í umhverfisstarfið:

  • Stjórnendur styðja og eru með
  • Góðu fyrirmyndirnar á vinnustaðnum eru áberandi
  • Skýr ábyrgð og verkaskipting
  • Það er skemmtilegt að taka þátt
  • Áföngum er fagnað

Hvernig er hægt að halda í jákvæðnina?

Þær fengu einnig spurningar um hvernig okkur takist að halda í jákvæðnina í Grænu skrefunum og fá fólk með þegar neikvæðar fréttir um umhverfismál dynja á okkur

Þær bentu á að það sem viðheldur jákvæðri hvatningu er einmitt að finna að vinnustaðurinn er að ná árangri í umhverfismálunum, í litlum skrefum. Því fylgir svo margs konar hliðarávinningur; hvort sem það er bætt heilsa, sparnaður, samvera, aukin þekking eða annað.

5% þjóðarinnar með

Í dag eru 177 stofnanir þátttakendur í verkefninu sem er 95% allra ríkisstofnana í landinu. Um 18.000 starfsmenn starfa hjá þessum 177 stofnunum sem þýðir að 5% þjóðarinnar stíga nú Græn skref í takt!

Mynd: Þorbjörg Sandra Bakke og Birgitta Steingrímsdóttir, sérfræðingar í teymi hringrásarhagkerfis, kynntu Grænu skrefin í breska stjórnarráðinu.

Hvað eru Græn skref?

Grænu skrefin eru hvatakerfi sem hafa það að markmiði að efla innra umhverfisstarf ríkisstofnana, auka umhverfisvitund starfsmanna og leiðbeina um gerð umhverfis- og loftslagsstefnu.

Það er stofnunum ríkisins að kostnaðarlausu að taka þátt og þær fá leiðsögn frá okkur hjá Umhverfisstofnun við innleiðinguna.

graenskref.is