Stök frétt

Magn úrgangs sem berst í fráveitukerfið hefur aukist mikið / Mynd: Unsplash

Skýrsla um stöðu fráveitumála á Íslandi fyrir árið 2022 er komin út: Stöðuskýrsla fráveitumála 2022

Helstu niðurstöður:

  • Magn úrgangs sem berst í fráveitukerfið hefur aukist mikið, eða úr 171 í 373 tonn hjá þeim þéttbýlum sem skiluðu tölum. Það sýnir hversu mikilvægt er að hafa góða hreinsun til að ná sem mestu af úrgangi og aðskotahlutum úr skólpinu. 
  • Þrjú þéttbýli hafa fengið samþykki til að beita vægari hreinsun. Þar hefur skólp viðtakinn (sjór eða ferskvatn) verið skilgreindur í góðu ástandi til að dreifa og eyða skólpi. Fjögur þéttbýli til viðbótar eru að hefja ferlið.
  • Aðeins tvö þéttbýli uppfylla ákvæði um hreinsun í samræmi við reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Þéttbýlin losa minna en 10.000 pe. í sjó sem gerir það að verkum að hreinsikröfur eru ákveðnar miðað við aðstæður og samþykktar af heilbrigðisnefnd. Í báðum tilfellum er um grófhreinsun að ræða (Borgarnes og Dalvík).

Skýrslan byggir á gögnum frá heilbrigðiseftirlitum, Umhverfisstofnun og rekstraraðilum um allt land. Gögnum var safnað frá þéttbýlum sem losa meira en 2.000 persónueiningar (magn skólps sem íbúar, gestir og matvælaiðnaður losa frá sér). Þau eru 29 talsins og ná yfir 89% íbúa landsins

Mikill vilji til úrbóta

Úrbætur í fráveitu taka oft nokkurn tíma og því eru breytingar á milli gagnaskila frekar litlar eins og er en greina má meiri vilja til að gera betur. 

Sveitarfélög geta sótt um styrk úr ríkissjóði fyrir allt að 20- 30% af heildarkostnaði úrbóta í fráveitu sem hefur hjálpað til við að ýta á eftir úrbótum. Til viðbótar er þrýst á úrbætur með vatnaáætlun en markmiðið þar er að allt vatn sé í góðu ástandi.  

Leiðbeiningar fyrir sveitarfélög

Til að auðvelda innleiðingu og eftirfylgni ákvæða laga og reglugerða hefur Umhverfisstofnun gefið út ýmiskonar leiðbeiningar í samstarfi við ýmsa aðila s.s. heilbrigðiseftirlit, sveitarfélög, fráveitur og fleiri.

 

Tengt efni: