Stök frétt

Skrifstofuhúsnæði KPMG í Borgartúni 27 hefur hlotið Svansvottun samkvæmt endurbótaviðmiðum Svansins. Byggingin er í heild sinni átta hæðir en vottunin nær yfir skrifstofurými KPMG og er stærsta endurbótaverkefni sem hlotið hefur vottun hér á landi. Hérlendis hafa verið gefin út þrjú Svansleyfi fyrir endurbótaverkefni og þar af tvö fyrir skrifstofurými.

„Verkefnið var mjög lærdómsríkt og lögðu margir hönd á plóg, bæði okkar starfsfólk svo og verktakar. Góð samvinna við notendur hússins og skilningur á framkvæmdatíma skipti sköpum. Skilgreint var vinnusvæði við húsið þar sem komið var fyrir gámum til að flokka það sem féll til úr húsinu, aðkoma steypubíla gerð möguleg o.s.frv. Með þessa reynslu í farteskinu munum við halda ótrauð áfram í næsta verkefni þar sem er stefnt að Svansvottun,“ segir Guðrún Ólafsdóttir, öryggis- og gæðastjóri Byggingarfélags Gylfa og Gunnars (BYGG).

Hönnun rýmisins tekur mið af vistvænum lausnum og var lögð áhersla á að fegra umhverfið með því að búa til rými fyrir um 200 plöntur á vinnuhæðunum með það að markmiði að auka á vellíðan starfsfólks með bættum loftgæðum og minnkandi streitu svo eitthvað sé nefnt. Einnig voru sett upp verkefnamiðað vinnuumhverfi með fjölbreyttum fundarherbergjum og næðisrýmum.

 „Við erum mjög stolt af því að breytingarnar á skrifstofuhúsnæði KPMG hafi verið Svansvottaðar,“ segir Sigrún Kristjánsdóttir, sviðsstjóri þróunar og reksturs hjá KPMG, og bætir við: „Markmið okkar með breytingunum var að skapa gott vinnuumhverfi sem stuðlar að vellíðan starfsfólks og okkur finnst það hafa tekist afar vel. Það er mikilvægt fyrir okkur að fá formlega staðfestingu á því að breytingarnar standist kröfur Svansvottunar um umhverfismál enda er sjálfbærni ein af lykiláherslum KPMG á Íslandi.“

Viðmið Svansins fyrir endurbætur eru umfangsmikil þar sem markmiðið er að lágmarka áhrif framkvæmda á umhverfi og heilsu. Svansvottunin tryggir gæði byggingarinnar meðal annars með betri innivist sem er m.a. náð með ströngum kröfum á efnainnihald byggingavara. Í Svansvottun er einnig lögð áhersla á endurnotkun byggingarefna og að úrgangur fari í endurvinnslufarveg. Ísland er fremst í flokki þegar kemur að Svansvottuðum endurbótum á Norðurlöndunum og hefur áhugi á að votta slíkar framkvæmdir aukist gríðarlega á síðustu árum.

Guðrún Lilja framkvæmdarstjóri Svansins á Íslandi sagði við tilefnið: “Það er ánægjulegt að sjá fleiri fyrirtæki vera með sjálfbærni að leiðarljósi og setja umhverfið og heilsu fólks í fyrsta sæti.”

Við óskum BYGG og KPMG innilega til hamingju með áfangann!