Stök frétt

Undanfarið hefur farið fram vinna við stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu og nýtt stofnlíkan (IPM – integrated population model) fyrir rjúpnastofninn. Markmið með nýrri stjórnunar- og verndaráætlun og nýju stofnlíkani er að efla faglegan grunn veiðistjórnunar, efla traust meðal hagsmunaaðila og stofnana og að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika í árlegri veiðistjórnun.

Samstarfshópur um gerð áætlunarinnar

Vinnuhópur verkefnisins samanstendur af fulltrúum Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Hópurinn hefur komið saman í tveimur vinnustofum: þriggja daga vinnustofu í febrúar 2023 og tveggja daga vinnustofu í september 2023, ásamt því að hópurinn hefur hist á fjarfundum.

Endurbætt stofnlíkan

Í lok árs 2022 gerði Umhverfisstofnun tímabundin samning við Dr. Fred Johnson, bandarískan sérfræðing í líkanagerð og veiðistjórnun við háskólann í Árósum og háskólann í Flórída. Fred hefur áratuga reynslu af gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir fugla- og dýrastofna og er einn af frumkvöðlum í heimi aðlögunarstjórnunar (adaptive management). Hann hefur undanfarin misseri leitt vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpnastofninn í samvinnu við hagsmunaaðila og unnið að nýju og endurbætti stofnlíkani sem byggt er á gildum og veiðistjórnunarmarkmiðum vinnuhóps verkefnisins. Með nýju stofnlíkani eru stór skref stigin í að bæta veiðistjórnun á rjúpnastofninum og líkanið mun auka skilning á stofnvistfræði og helstu hvötum að baki stofnsveiflum.

Tillögur að nýju veiðistjórnunarkerfi

Í febrúar skilaði Umhverfisstofnun inn tillögum til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis um nýtt fyrirkomulag veiðistjórnunar á rjúpu ásamt því að halda kynningu fyrir Guðlaug Þór, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og aðra starfsmenn ráðuneytisins. Tillögurnar gera ráð fyrir að tekin verði upp svæðisbundin veiðistjórnun þar sem landinu verður skipt upp í sex veiðissvæði og að rjúpnaveiðitímabil haustsins muni hefjast þann 25. október að öllu óbreyttu. Stjórnunar- og verndaráætlunin mun byggja á þessum tillögum og gert er ráð fyrir að drög að áætluninni verði tilbúin í vor. Stofnunin mun fljótlega hefja kynningu á verkefninu í samstarfi við helstu hagsmunaaðila og gert er ráð fyrir að rjúpnaveiðar ársins 2024 verði með nýju fyrirkomulagi.