Stök frétt

Frá vinstri Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri málefna fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg og Auður H. Ingólfsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Félagsbústaðir hafa bæst við í hóp leyfishafa hjá Svaninum. Íbúðarkjarni þeirra að Hagaseli 23 í Breiðholti hefur nú hlotið Svansvottun. Í kjarnanum búa sjö fatlaðir einstaklingar sem fá stuðning starfsfólks velferðarsviðs sem hefur einnig aðsetur þar.

Húsið er timburhús á tveimur hæðum, byggt úr CLT einingum þar sem náttúrulegur efniviður fær að njóta sín.

Fyrst opinberra að hljóta vottun fyrir nýbyggingar

Félagsbústaðir eru í eigu Reykjavíkurborgar. Íbúðakjarninn í Hagaseli er fyrsta verkefnið sem hlýtur vottun á vegum borgarinnar og jafnframt fyrsta opinbera verkefnið sem hlýtur vottun í viðmiðaflokki fyrir nýbyggingar.

Svansvottunarferlið hófst árið 2020 og voru Félagsbústaðir með fyrstu aðilunum til að fara í gegnum nýbyggingarviðmið Svansins.

Mikilvægt frumkvæði í umhverfismálum

Það er mikilvægt að opinberir aðilar sýni frumkvæði þegar kemur að umhverfismálum almennt og ekki síst í byggingariðnaði þar sem sá iðnaður hefur gríðarleg áhrif á umhverfið.

Svansvottun Hagasels 23 tryggir fyrst og fremst að húsið sé betra fyrir heilsuna og umhverfið og eiturefni séu ekki notuð við byggingu þess. vottunin tekur til alls lífsferils byggingarinnar. Það þýðir að ákveðnar kröfur eru settar hvað varðar efnisval, framkvæmdina, hönnunina, niðurrif og fleira. Kröfur Svansins taka einnig á mörgum öðrum þáttum sem snerta umhverfismál eins og
   - Losun gróðurhúsalofttegunda
   - Hringrásarhagkerfinu
   - Orkusparnaði
   - Innivist
   - Efnamálum


„Verkefni sem þessi taka langan tíma og fela í sér mikla vinnu, Félagsbústaðir geta verið stoltir af því að hafa komist í gegnum strangar kröfur Svansins og að hafa sýnt þetta mikilvæga fordæmi“ segir Auður H. Ingólfsdóttir sviðstjóri loftslags og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun

Það er dýrmæt reynsla fyrir aðila eins og Félagsbústaði að fara í gegnum Svansvottunarferli og auka þannig þekkingu sína á umhverfismálum til framtíðar. Við óskum þeim innilega til hamingju með þennan áfanga!