Stök frétt

Nú geta handhafar veiðikorts sótt það á stafrænu formi og vistað í veskisappi í símanum hjá sér. 

Þjónustunni var formlega ýtt úr vör í dag þegar veiðikonan Harpa Hlín Þórðardóttir, sótti fyrsta stafræna veiðikortið að viðstöddum Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Sigrúnu Ágústsdóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar. Starfsfólk Umhverfisstofnunar og Stafræns Ísland sem komið hafa að verkefninu og Jón Víðir Hauksson, fulltrúi Skotveiðifélags Íslands, voru einnig viðstödd. 

Sækja stafrænt veiðikort 

Veiðikorthafar geta hlaðið stafræna veiðikortinu beint niður snjallveskið í símann sinn í gegnum island.is á vefnum.  Á Mínum síðum þar, undir valmöguleikanum „Skírteini“ geta þeir veiðikorthafar sem skilað hafa veiðiskýrslu og greitt fyrir veiðikort fært skírteinið yfir í veskið með einföldum hætti. Á næstu dögum mun einnig verða hægt að nálgast skírteinið í island.is appinu bæði fyrir iOS og Android. 

Plastkort á útleið 

Fjöldi skráðra veiðikorthafa er rétt tæplega 30.000 en árlega endurnýja 10-12 þúsund manns veiðikortið. Í upphafi veiðikortakerfisins þurfti að prenta út allar veiðiskýrslur og veiðikort og senda um land allt og var verkefnið mjög umfangsmikið. Þetta kostaði ekki bara mikla vinnu heldur fylgdi þessu mikil sóun á pappír og plasti. 

Stafrænt veiðikort á PDF formi hefur verið í boði frá árinu 2016. Nú er loks komið að því að einfalda veiðifólki lífið með aðgengi að stafrænu veiðikorti í gegnum island.is. 

Frá árinu 2016 hefur hlutfall þeirra sem vilja plastveiðikort farið ört minnkandi. Þó þróunin hafi verið í rétta átt þá vildu enn þá 25% veiðikorthafa árið 2023 fá plastkort sent heim í pósti.  

Það er von um Umhverfisstofnunar að með tilkomu stafræna kortsins í snjallveski muni enn draga úr fjölda þeirra sem vilja plastkort. Stefnt er að því að hætta alfarið með plastkort á næstu árum.  

Veiðikort skilyrði fyrir veiðum  

Enginn má stundar veiðar á villtum fuglum og spendýrum í náttúru Íslands nema hafa til þess gilt veiðikort. Veiðikort er hægt að öðlast með því að sitja námskeið á vegum Umhverfisstofnunar og standast próf í kjölfarið. Veiðikort eru endurnýjuð árlega að loknum skilum á veiðiskýrslu. 


Frá vinstri: Bjarni Jónasson og Bjarni Pálsson, sérfræðingar í teymi veiði og lífríkis hjá Umhverfisstofnun, Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Harpa Hlín Þórðardóttir, veiðikona, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Jón Víðir Hauksson, stjórnarmeðlimur Skotvís, Jóhannes Birgir Jensson, verkefnastjóri stafrænna lausna hjá Umhverfisstofnun og Kjartan Dige Baldursson, starfsmaður Ísland.is.