Stök frétt

Varað er sérstaklega við mjúkum plastleikföngum fyrir börn / Mynd: Canva

Umhverfisstofnun leggur hér fram lista yfir vöruflokka sem við ráðleggjum neytendum að forðast á Temu og öðrum sambærilegum netverslunum utan Evrópu. Vörur í þessum vöruflokkum eiga það sameiginlegt að líklegt er að þær innihaldi skaðleg efni og ógni öryggi neytenda. Um þær gilda því sérstök lög innan evrópska efnahagssvæðisins (EES) sem líklegt er að séu ekki uppfyllt í netverslunum utan álfunnar.

Vörur fyrir börn

Börn eru mun næmari fyrir efnum í umhverfinu en fullorðnir. Mesta efnaáhættan er í mjúkum plastleikföngum og rafmagnsleikföngum en í þeim er algengt að finnist hormónaraskandi efni og þungmálmar í of miklu magni.

Í febrúar 2024 létu samtök leikfangaframleiðenda í Evrópu framkvæma rannsókn á leikföngum keyptum á Temu. Ekkert þeirra uppfyllti að fullu kröfur Evrópusambandsins um öryggi og efnainnihald slíkra vara. 18 af 19 leikföngum sem prófuð voru sýndu fram á verulega hættu fyrir börn sem leika með þau, m.a. hættu á skurði, kyrkingu og stungu, köfnunarhættu og efnahættu.

Eitt slímsett innihélt t.a.m. 11 sinnum meiri bór en leyfilegt er í leikföngum samkvæmt Evrópuregluverki. Hátt magn bórs getur framkallað ælu, niðurgang, útbrot og mikinn höfuðverk auk þess sem það getur valdið skaða á fóstri í móðurkviði. Samkvæmt þessu ættu þessi leikföng að vera bönnuð á evrópska efnahagssvæðinu. 

Snyrtivörur

Neytendur ættu alfarið að forðast kaup á snyrti- og hreinlætisvörum frá Temu þar sem þessar vörur komast í beina snertingu við húðina og í einhverjum tilfellum getum við innbyrt þær, t.d. þær sem við berum á varirnar.

Í október 2023 prófuðu ítölsku Neytendasamtökin 13 snyrtivörur frá Temu, þar af voru níu með ófullnægjandi eða engan lista yfir innihaldsefni. Þetta þýðir að vörurnar geta innihaldið skaðleg eða jafnvel ólögleg efni án þess að neytendur hafir nokkurn möguleika á að vita það.

Innan EES svæðisins er skylda að hafa innihaldslista efna á umbúðum snyrtivara í lækkandi styrk eins og þekkist hjá matvælum, en til að setja snyrtivörur á markað þurfa þær að fara í gegnum öryggismat. Vísindanefnd um öryggi neytenda metur svo innihaldsefni sem eru notuð í snyrtivörur en EES svæðið er með ströngustu kröfur á efnainnihaldi snyrtivara.  

Eldhúsáhöld

Það er ekki góð hugmynd að kaupa eldhúsáhöld sem komast í beina snertingu við mat frá Temu. Fjölmargar reglur gilda um innihald og leka efna úr vörum sem ætlaðar eru til snertingar við matvæli innan evrópska efnahagssvæðisins enda mikilvægt að slíkar vörur leki ekki skaðlegum efnum frá sér í matvæli. Við vitum ekki með vissu hvort eldhúsáhöld og aðrar vörur sem ætlaðar eru til matargerðar frá Temu standist fyrrnefndar kröfur um efnainnihald og því er öruggast að sleppa kaupum á þeim. 

Raftæki

Erfitt er að sjá á heimasíðu Temu hvort raf- og rafeindatæki uppfylli evrópskar öryggiskröfur sem lágmarka hættu á bruna og raflosti eða hvort þau innihaldi ólögleg skaðleg efni á borð við blý, króm eða kvikasilfur.

Samnorrænt eftirlitsverkefni með vörum sem seldar eru á hinum ýmsu netverslunum var framkvæmt árið 2020 sem leiddi í ljós að flestu frávikin frá efnalöggjöfinni voru vegna raftækja eða 57% frávika og í öðru sæti voru leikföng með 23% frávika.

Ýmsar reglur gilda um raftæki innan EES, t.a.m. er varða aukaefni í plasti, notkun ýmissa málma og eldtefjandi efna. Við almenna notkun raftækja þá losna efnin mest úr þeim þegar þau eru ný og þegar það er kveikt á þeim. Þó svo að styrkur efna sem er að losna út í umhverfið sé mjög lítill, sem er í sjálfu sér ef til vill skaðlaus, þá getur það leitt til vandamála þar sem það sameinast öðrum mengunarvöldum innandyra sem geta magnað upp áhrifin.

Textíll

Yfirleitt eru ódýr og léleg hráefni notuð í textíl eins og fatnað og rúmföt frá netverslunum utan EES, einkum þeirra sem eru með gyllitilboð. Fundist hafa skaðleg efni í miklu magni í fötum frá Shein, til að mynda blý og þalöt. Þessi efni eru takmörkuð eða bönnuð í textíl innan EES og myndu því ekki vera lögleg í sölu hér á landi.

Við mælum með að vera gagnrýnin á textíl frá netverslunum líkt og Temu og Shein þar sem lágt verð er oft tengt við léleg hráefni þar á meðal óæskileg efni. Erfitt getur verið að fá upplýsingar frá vefsíðunum um hvaða efni eru raunverulega í flíkinni. 

Fleiri frávik frá efnalöggjöfinni á vörum utan EES

Tvö samnorræn eftirlitsverkefni leiddu í ljós að mun fleiri frávik frá efnalöggjöf EES voru vegna vara sem keyptar voru í netverslunum frá svæðum utan EES heldur en innan svæðisins. Í fyrra verkefninu voru 78% frávika vegna vara utan EES á meðan 32% frávika voru á vörum innan EES. Þær netverslanir sem stóðu sig verst voru alþjóðlegir risar á borð við Wish, Alibaba, Amazon og Ebay.

Í seinna verkefninu voru 66% frávik vegna vara utan EES á meðan 37% frávik voru á vörum innan EES. Flestu frávikin voru vegna raftækja (60%) og þá einkum raftæki sem flokkast sem leikföng.

Erfitt getur reynst fyrir eftirlitsstofnanir að eltast við fyrirtæki og einstaklinga sem eru búsettir á svæðum utan EES þar sem erfitt er að reka mál gangvart þeim. Aðilar sem selja í gegnum netmarkaði geta einfaldlega tekið niður síðuna eða aðganginn og búið til nýjan. Að auki getur verið erfitt að finna ábyrgðaraðila eða ná sambandi við forsvarsmenn.

„Vantar mig þetta og mun þetta koma að góðum notum?“

Með meðvituðum innkaupum þar sem kaup á óþarfa er sleppt verndum við náttúruna, stuðlum að betri heilsu og vellíðan okkar og annarra og búum betur í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Við mælum því með möntrunni „vantar mig þetta og mun þetta koma að góðum notum?“ þegar við stöndum frammi fyrir kaupum almennt.

Tengt efni