Stök frétt

Fuglar og önnur dýr innbyrða plasttappana / Mynd: Chris Jordan/Wikimedia Commons

Plasttappar eru á meðal 10 algengustu plasthlutanna sem finnast á ströndum Evrópu. Þeir valda miklum skaða á lífríkinu. Þess vegna þurfa tapparnir nú að vera fastir við flöskuna.

Dýrin gleypa tappana

Fuglar, fiskar og önnur sjávardýr halda oft að skærlitir tapparnir séu fæða. Dýrin geta drepist úr vannæringu ef þau innbyrða þá eða annað plast. Með því að tryggja að tapparnir haldist á flöskunum komum við í veg fyrir að þeir endi í náttúrunni og aukum líkurnar á því að þeir komist með í endurvinnslu.

Vörur úr einnota plasti sem fjúka eða er hent í umhverfið enda oftar en ekki í hafinu. Evrópusambandið hefur því lagt áherslu á að beita sér gegn 10 algengustu plastvörunum sem finnast á ströndum í Evrópu. Tappar og lok eru á þeim lista.

Samkvæmt vöktun Umhverfisstofnunar á rusli við strendur Íslands eru plasttappar og -lok í 7. sæti yfir algengustu plasthlutina sem fundust á árunum 2016-2022.

Vörur úr einnota plasti sem fjúka eða er hent í umhverfið enda oftar en ekki í hafinu / Mynd: Canva.

Komum töppunum í endurvinnslu

Á hverju ári er talið að um 8 milljón tonn af plasti endi í hafinu. Plastið hverfur ekki heldur brotnar á endanum niður í smáar einingar sem kallast örplast. Plast hefur nú fundist nær allsstaðar á jörðinni; á botni dýpsta svæðis sjávar, í fylgju ófæddra barna, í mannsblóði og inn í Vatnajökli!

Á Íslandi, þar sem óspillt náttúra og hreint haf er þjóðarstolt og máttarstólpi efnahagsins, er mikilvægt að leita allra leiða til að draga úr plastmengun.

Plast er frábært og endingargott efni sem oft er hægt að endurvinna í nokkur skipti. Það er því til mikils að vinna að halda því frá náttúrunni og inn í hringrásarhagkerfinu eins lengi og unnt er.

Ofnotkun á einnota plasti veldur vandræðum

Framleiðsla á plasti hefur tvöhundruðfaldast síðan árið 1950. Við erum alltaf að nota plastið í styttri og styttri tíma. Plast endist ótrúlega lengi en við notum það oft bara í nokkrar mínútur. Með aukinni framleiðslu og styttri líftíma endar meira og meira af plasti í náttúrunni með tilheyrandi skaða fyrir lífríkið.

Til að takast á við þessi vandamál hafa stjórnvöld sett reglur sem setja einnota plastvörum ýmis takmörk. Markmiðið er að koma í veg fyrir mengun af völdum einnota plasts og tryggja að plastið sem við notum sé endurunnið og komist þannig inn í hringrásina aftur.

Rusl úr strandhreinsun Umhverfisstofnunar á Geldingarnesi árið 2023 / Mynd: Umhverfisstofnun

Nýjar reglur um áfasta tappa

Í gegnum EES samninginn hefur Ísland skuldbundið sig til þess að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um einnota plastvörur. Nú þegar hefur hluti ákvæðanna verið innleiddur, til dæmis bann við tilteknum einnota plastvörum og krafa á sölustaði að rukka gjald fyrir einnota plastílát.

Nú er komið að töppunum. Drykkjarílát og -umbúðir úr plasti fyrir allt að þrjá lítra af vökva verða að hafa tappa eða lok sem er áfast á meðan notkun vörunnar stendur.

Íslendingar framarlega í skilum á einnota drykkjarvöruumbúðum til endurvinnslu

Ísland var fyrst í heiminum til að koma á skilagjaldskerfi á landsvísu fyrir allar einnota drykkjarvöruumbúðir og er það Endurvinnslan hf sem annast kerfið. Frá því að fyrirtækið hóf starfsemi hefur árangur söfnunar verið með því besta sem gerist og hefur verið að nálgast 90% skil á ársgrundvelli. Þó að plastflöskurnar skili sér til Endurvinnslunnar berast tapparnir ekki alltaf með og standa vonir til þess að það breytist með nýjum reglum.

Umbúðir úr plasti fyrir allt að þrjá lítra af vökva verða að hafa tappa eða lok sem er áfast / Mynd: Canva

Saman gegn sóun

Plastmengun á sér engin landamæri og öll þurfum við að taka þátt í að berjast gegn henni. Þó þessi breyting kunni að virðast lítil, munu áhrif hennar vera mikil. Mörg íslensk fyrirtæki eru nú þegar búin að stíga skrefið og breyta sínum framleiðsluferlum og innkaupum til að taka þátt í breytingunni. Öll hönnun tekur mið af því að gera breytinguna sem auðveldasta fyrir neytendur og hafa flest fyrirtæki birt upplýsingar á heimasíðum sínum um virkni nýju tappanna.

Það er til mikils að vinna að halda náttúrunni okkar hreinni og taka þátt í að skapa hringrásarhagkerfi. Verum opin fyrir breytingum, fræðum okkur um virkni nýju tappanna og stöndum saman gegn sóun!

 

Tengt efni: