Stök frétt

Markmiðið er að varðveita einstakar jarðmyndanir og viðhalda ásýnd Fjaðrárgljúfurs fyrir komandi kynslóðir.

Mánudaginn 1. júlí staðfesti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra stjórnunar- og verndaráætlun fyrir náttúruvættið Fjaðrárgljúfur í Skaftárhreppi. 

Áætlunin er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, landeigenda að Heiði og Skaftárhrepps. Hópurinn vann einnig að friðlýsingu svæðisins sem staðfest var í maí í ár.

Fjaðrárgljúfur er gott dæmi um landmótunarferli sem hófst fyrir um 10.000 árum og er enn í gangi.

Varðveita einstakar jarðmyndanir

Markmiðið með friðlýsingu og nú útgáfu stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Fjaðrárgljúfur er að varðveita þær einstöku jarðmyndanir sem þar hafa mótast og að ásýnd svæðisins verði viðhaldið fyrir komandi kynslóðir. 

Fjaðrárgljúfur er meðal fjölsóttustu ferðamannastaða landsins og hefur hátt verndargildi.

Fjaðrárgljúfur er um 1,5 km á lengd og mesta dýpt um 100 m.

 Innst í Fjaðrárgljúfri eru fossar.

Landmótun gljúfursins enn í gangi

Gljúfrið er gott dæmi um virk ferli landmótunar sem hófst í lok síðustu ísaldar fyrir um 10.000 árum og er enn í gangi.

Ofan við gljúfrið eru malarhjallar sem benda til þess að jökullón hafi myndast fyrir framan hörfandi jökul og vegna fyrirstöðu sem lá efst í núverandi gljúfri. Lónið hefur fyllst tiltölulega fljótt upp af framburði, en vatnsmiklar og aurugar jökulár áttu síðar auðvelt með að rjúfa sér farveg í undirliggjandi berggrunn úr móbergi. Innst í Fjaðrárgljúfri eru fossar og þó að Fjaðrá sé mun kraftminni en vatnsmiklu jökulárnar í lok ísaldar, þá er landmótun gljúfursins enn í gangi. 

 

Tengt efni:

 

Myndir með frétt: Canva