Stök frétt

Hluti hópsins sem kom að verkefninu. Hlín Helga Guðlaugsdóttir, Katrín Karlsdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Valdimar Kristjánsson, Inga Dóra Hrólfsdóttir og Hringur Hafsteinsson.

Ný sýning hefur verið opnuð á Sigríðarstíg við Gullfoss. Í sýningunni er Sigríður Tómasdóttir frá Brattholti glædd lífi með aðstoð sýndarveruleika (e. virtual reality) og viðbætts veruleika (e. augmented reality). 

Gestir geta nálgast efnið með því að skanna QR kóða á fimm stöðum á svæðinu. Einnig er hægt að skoða efnið á skiltum með texta og ljósmyndum.

Ebba Katrín Finnsdóttir, leikkona, leikur Sigríði í sýningunni. Gagarín sá um upplifunarhönnun.

Leikkonan Ebba Katrín opnar sýninguna formlega.

Sigríður sjálf leiðsögukonan

Í sýningunni fá gestir tækifæri til að upplifa svæðið í kringum Gullfoss í gegnum Sigríði. Hún er leiðsögukonan og handritið byggir á viðburðum úr hennar lífi og baráttu fyrir verndun Gullfoss.

Í sýningunni er til dæmis hægt að sjá með aðstoð sýndarveruleika hvernig svæðið myndi líta út ef Sigríðar hefði ekki notið við og Gullfoss hefði verið virkjaður. 

Upplifunin á Sigríðarstíg á að skilja eftir sig tilfinningu fyrir afrekum, mótlæti og elju þessarar merku konu og innblástur um mikilvægi náttúruverndar, þá sem nú.

Hluti hópsins sem kom að verkefninu hittist við Gullfoss og opnaði sýninguna.

Sigríður opnaði augu almennings fyrir náttúruvernd

Sigríður frá Brattholti barðist fyrir verndun Gullfoss. Í kringum árið 1900 voru uppi hugmyndir um að virkja fossinn.

Barátta Sigríðar krafðist þrautseigju og tók stundum á sig ævintýralegan blæ. Hún varð þekkt fyrir þessa baráttu og fólk dáðist að átthagaást og áræði þessarar sveitakonu, þó samtímafólk hafi ekki allt verið henni sammála og hún hafi mætt nokkurri andstöðu.

Sigríður opnaði augu almennings fyrir þeim verðmætum sem felast í Gullfossi og þar með einnig í öðrum dýrmætum perlum íslenskrar náttúru. 

Hlín Helga frá Gagarín skoðar hvernig Gullfoss myndi líta út í ef hann hefði verið virkjaður.

Um verkefnið

Sýningin var samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar og Gagarín. Eyrún Ingadóttir, rithöfundur, kom að ráðgjöf við handritagerð. Verkefnið hlaut styrk frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

Gestir geta skoðað sýninguna í farsíma og á skiltum víðsvegar um svæðið.

Valdimar Kristjánsson, svæðissérfræðingur Umhverfisstofnunar á Gullfossi, og Ebba Katrín Finnsdóttir, leikkona, léku í sýningunni.