Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Frétt

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Tarfaveiðar hefjast laugardaginn 15. júlí.

Tilmæli við tarfaveiðar

Við vekjum athygli á því að veturgamlir tarfar eru alfriðaðir. Tarfaveiði miðast því við tarfa sem eru tveggja vetra og eldri.

Fram til 1. ágúst skal ekki veiða tarfa sem eru í fylgd með kúm þannig veiðarnar trufli ekki kýr og kálfa í sumarbeit. 

Veiðimenn á veiðisvæði 9 eru hvattir til að veiða tarfa vestast á svæðinu. Það er gert til að fækka dýrum á svæðinu og minnka líkurnar á því að þau fari vestur yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi. Það er einnig gert til að koma í veg fyrir gróðurskemmdir, ef dýrin verða of mörg á svæðinu.

Veiðileyfi

Nú ættu allir tarfaveiðimenn að hafa fengið veiðileyfi send með pósti. Ef leyfin berast ekki verða veiðimenn að hafa samband við Umhverfisstofnun sem fyrst.

Í þeim tilgangi að draga úr pappírsnotkun er QR kóði á leyfinu sem vísar á bréf til veiðimanna sem að jafnaði hefur verið í umslaginu. Í bréfinu eru ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir leyfishafa. 

Veiðileyfi á kýr verða send út um 20. júlí og ættu þá að hafa borist leyfishöfum fyrir upphaf veiðitíma á kúm sem hefst 1. ágúst.

Tilmæli við veiðar á kúm

Veiðimönnum er bent á að tvær fyrstu vikur veiðitímabilsins er veiðimönnum gert að forðast í lengstu lög að fella mylkar kýr svo draga megi eftir megni úr áhrifum veiðanna á kálfa. Þess í stað eru veiðimenn eindregið hvattir til að veiða eingöngu geldar kýr. Er í þessu sambandi bent á hlutverk og skyldur leiðsögumanna við að aðstoða og leiðbeina veiðimönnum við val á bráð.

Skotvopnaleyfi

Veiðimenn eru minntir á að kanna gildistíma skotvopnaleyfa áður en haldið er til veiða.

Landeigendur

Að lokum er landeigendum bent á að aðeins er heimilt að úthluta arði af hreindýraveiðum til þeirra sem heimila hreindýraveiðar á landi sínu allt veiðitímabilið.

Landeigendum sem hafa heimilað veiðar á sínu landi er ekki heimilt að hlutast til um að velja hvaða veiðimenn eða leiðsögumenn þeirra fái að veiða þar.