Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að nýju starfsleyfi fyrir Rio Tinto á Íslandi hf. Tillagan gerir ráð fyrir að heimilt verði að framleiða í kerskálum álvers ISAL í Straumsvík allt að 460.000 tonn af áli á ári auk reksturs tilheyrandi málmsteypu, ker- og skautsmiðju og flæðigryfju fyrir kerbrot og tilgreindan eigin framleiðsluúrgang, auk þjónustu sem tengist framleiðsluferlum beint. Núgildandi starfsleyfi álversins gildir til 1. nóvember 2021 þar sem rekstraraðili nýtti sér heimild 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, til að framlengja starfsleyfið, sem hefði annars gilt til 1. nóvember 2020, um eitt ár. Rekstraraðili sótti því um nýtt starfsleyfi.

Rekstraraðili óskaði eftir því að starfsleyfið myndi veita sömu heimildir til framleiðslu og eldra starfsleyfi og er orðið við því. Eftir sem áður þarf að liggja fyrir mat á umhverfisáhrifum ef farið verður í aukna framleiðslu sem krefst nýrra mannvirkja.

Í starfsleyfistillögunni eru lagðar til ýmsar breytingar samanborið við það starfsleyfi sem er í gildi. Meðal annars með tilliti til breytinga sem orðið hafa á lögum og reglum á þessu sviði. Nefna má eftirfarandi atriði:

  • Skylt verður að starfrækja umhverfisstjórnunarkerfi.
  • Ekki er gert ráð fyrir að ákvæði séu í starfsleyfinu um þynningarsvæði.
  • Losunarmörkum fyrir ársmeðaltal heildarlosunar flúoríðs, brennisteins og ryks fyrir heildarlosun frá kerskálum er breytt til samræmis við BAT-niðurstöður frá Evrópusambandinu og er niðurstaðan að heimildir til losunar eru í flestum tilfellum þrengdar.
  • Önnur losunarmörk eru einnig aðlöguð að BAT-niðurstöðum.
  • Tilgreindar eru kröfur BAT-niðurstaðna um val á tæknilausnum til að draga úr losun og minnka önnur umhverfisáhrif.
  • Mælikröfur á losun álversins eru auknar.

Í tillögunni eru einnig ákvæði sem virkjast ef um aukna framleiðslu verður að ræða í álverinu á starfsleyfistíma. Ef ársframleiðslan fer yfir 330.000 tonn taka hert ákvæði gildi.

Tillaga að starfsleyfi ásamt umsóknargögnun frá rekstraraðila verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 24. ágúst til og með 21. september 2021 og gefst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins verður tekin.

Í umsóknarferlinu lagði rekstraraðili fram grunnástandsskýrslu um stöðu jarðvegs- og grunnvatnsmengun á iðnaðarsvæði starfseminnar. Í grunnástandsskýrslu er einnig að finna yfirlit yfir efnanotkun álversins á rekstrartíma þess sem getur hafa haft áhrif á grunnvatn. Grunnástandsskýrslu ber að skila sbr. 16. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og hefur þýðingu varðandi það hvað ber að gera þegar kemur að því að starfsemi á rekstrarsvæði er stöðvuð endanlega.

Ákveðið hefur verið að auk starfsleyfistillögunnar verður á auglýsingatíma einnig hægt að gera athugasemdir við drög að vöktunaráætlun fyrir tímabilið 2021-2029 sem fyrirtækið hefur lagt fram. Þar er um að ræða mælingar og rannsóknir sem gerðar verða á áhrifum framleiðslunnar á viðtaka mengunar.

Vöktunaráætlun hefur verið í gildi en kominn er tími til að gera nýja áætlun. Fyrirhugað er að efla vöktunina og það felur í sér að ný loftgæðamælistöð verður sett vestan við álverið, bætt verður í hvað varðar vöktun á gróðri og vatni auk þess sem vöktun mun fara fram á grunnvatni á fimm ára fresti.

Athugasemdir við starfsleyfistillöguna eða vöktunaráætlunina skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 21. september 2021.
Ef áhugi er fyrir hendi um að halda opinn kynningarfund um starfsleyfistillöguna er bent á að hafa samband við Umhverfisstofnun með slíkt erindi sem fyrst.

Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Tengd skjöl:
Starfsleyfistillaga
Starfsleyfisumsókn (PDF)
Viðaukar við starfsleyfisumsókn
Áhættumat vegna efnis í flæðigryfjur 
Drög að vöktunaráætlun
Grunnástandsskýrsla