Staðbundinn iðnaður

Staðbundinn iðnaðurStofnun viðskiptakerfisins með tilskipun 2003/87/EB fól í sér að losun koldíoxíðs (CO2) frá tiltekinni starfsemi (m.a. orkuframleiðslu með brennslu jarðefnaeldsneytis, járnframleiðslu og járnvinnslu) var gerð háð losunarheimildum frá 1. janúar 2005. Viðskiptakerfið hefur sumsé verið starfrækt frá ársbyrjun 2005 en því hefur verið skipt upp í mismunandi tímabil. Fyrsta tímabilið var frá 2005 til loka árs 2007. Annað tímabil kerfisins samsvarar skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar, 2008-2012. Fjöldi heimilda innan viðskiptakerfisins á því tímabili tók mið af fjölda heimilda sem gefnar voru út í samræmi við bókunina og var úthlutun til fyrirtækja innan kerfisins ákveðin í hverju ríki fyrir sig út frá svokölluðum landsbundnum úthlutunaráætlunum. Um og yfir 11.000 fyrirtæki á sviði orkuframleiðslu, olíuhreinsunar, járn- og stál framleiðslu, sem og brennsluver og fyrirtæki í framleiðslu á sementi, kalki, gleri, múrsteina, keramikgleri, pappír, pappírsdeigi, og bylgjupappa féllu undir viðskiptakerfið á öðru tímabili. Samanlagt stafar um það bil helmingur allrar losunar á koldíoxíði og um það bil 40% allra gróðurhúsalofttegunda innan Evrópusambandsins frá þessum 11.000 fyrirtækjum. 

 Þriðja viðskiptatímabilið hefst í ársbyrjun 2013 og stendur fram til ársins 2020. Á tímabilinu mun fyrirtækjum í olíuefna-, ammoníaks- og málmiðnaði (þ.m.t. álverum og járnblendiverksmiðjum) verða bætt við, sem og fleiri gróðurhúsalofttegundum (PFC og N2O). Þessi breyting á gildissviði kerfisins er mjög þýðingarmikil fyrir Ísland.

 Fyritæki innan viðskiptakerfisins fá ákveðnum fjölda losunarheimilda úthlutað án endurgjalds á viðskiptatímabilinu 2013 – 2020. Heildarfjöldi úthlutaðra losunarheimilda dregst saman með tímanum sem þ.a.l. stuðlar að samdrætti í losun. Árið 2020 er áætlað að losun fyrirtækja innan viðskiptakerfisins verði 21% minni en árið 2005. Eftir því sem dregið er úr endurgjaldslausri úthlutun þurfa fyrirtæki að leita annarra leiða til að eiga heimildir fyrir losun sinni. Þetta geta þau annaðhvort gert með því að þróa leiðir til að draga úr losun ellegar kaupa viðbótarheimildir á markaði eða opinberu uppboði. Með þessu fæst hagrænn hvati fyrir fyrirtæki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Árlega er fyrirtækjum svo gert skylt að framvísa losunarheimildum sem samsvara heildarmagni raunlosunar. Í flestum tilvikum fá fyrirtæki úthlutað heimildum sem duga einungis fyrir ákveðnum hluta af væntanlegri losun. Sökum þess standa fyrirtæki frammi fyrir þeirri ákvörðun að kaupa viðbótarlosunarheimildir, koma fyrir búnaði eða breyta aðferðum til að draga úr losun eða, ef nauðsyn þykir, draga úr framleiðslu. Ef fyrirtæki afhendir ekki tilskilinn fjölda losunarheimilda ber viðkomandi ríki að knýja fram efndir með viðurlagaákvæðum, m.a. með álagningu sekta.

Tilskipun 2003/87/EB og tengdar gerðir voru teknar upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007 í október 2007. Vegna þess hve lítil starfsemi hér á landi féll undir gildissvið tilskipunarinnar á tímabilinu 2008-2012 var samið um undanþágu fyrir Ísland við afgreiðslu málsins í sameiginlegu EES-nefndinni, en undanþágan fól í sér að lögaðilum hér á landi sem heyrðu undir gildissvið tilskipunarinnar á tímabilinu 2008 til 2012 var ekki skylt að afla losunarheimilda. Gildissvið tilskipunar 2003/87/EB var rýmkað umtalsvert með tilskipun 2009/29/EB. Breytingin er þýðingarmikil fyrir Ísland því að hún felur m.a. í sér að losun koldíoxíðs og flúorkolefna (PFC) frá álframleiðslu og losun koldíoxíðs frá járnblendi mun heyra undir kerfið og vera háð losunarheimildum frá 1. janúar 2013. Frá þeim tíma rennur út undanþága Íslands, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Frá 1. janúar 2013 munu íslensk fyrirtæki því falla undir viðskiptakerfið. Tilskipun 2003/87/EB og tengdar gerðir voru innleiddar í íslensk lög með lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál

Gerð er krafa um að rekstraraðilar sem stunda staðbundna starfsemi sem fellur undir gildissvið laganna hafi losunarleyfi. Losunarleyfið er forsenda þess að hægt sé að sækja um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda vegna losunar starfseminnar. Sótt er um losunarleyfi til Umhverfisstofnunar í samræmi við lög nr. 70/2012. 

Umhverfisstofnun hefur veitt 9 starfandi fyrirtækjum losunarleyfi. Þau eru: Alcan á Íslandi, Alcoa Fjarðaál, Elkem Ísland, HB Grandi Akranesi, Ísfélag Vestmannaeyja í Vestmannaeyjum, Ísfélag Vestmannaeyja Þórshöfn, Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði, Norðurál Grundartanga og Steinull hf. Einnig hafa bæði Norðurál í Helguvík og Íslenska Kísilfélagið í Helguvík losunarleyfi. 

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 70/2012 er Umhverfisstofnun heimilt að undanskilja fyrirtæki gildissviði viðskiptakerfisins, uppfylli þau tiltekin skilyrði. Fjórar umsóknir þess efnis bárust Umhverfisstofnun innan tímafrests (15. ágúst 2012) og samþykkti stofnunin allar umsóknirnar. Þessi fyrirtæki eru Steinull hf., HB Grandi Akranesi, Ísfélag Vestmannaeyja í Vestmannaeyjum og Ísfélag Vestmannaeyja Þórshöfn. Þessi fyrirtæki munu þurfa að ná sambærilegum árangri við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og þau fyrirtæki sem heyra undir kerfið og verða þau háð losunargjaldi, sbr. lög nr. 70/2012. 

Fimm starfandi fyrirtæki falla undir viðskiptakerfið hérlendis frá 1. janúar 2013. Þau eru: Alcan á Íslandi, Alcoa Fjarðaál, Elkem Ísland, Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði og Norðurál Grundartanga. Losun þessara fyrirtækja árið 2010 nam um 38% af heildarlosun Íslands. Öll fyrirtækin hafa sótt um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til Umhverfisstofnunar.

Frá 1. janúar 2013 gilda samræmdar reglur um endurgjaldslausa úthlutun til lögaðila í kerfinu, óháð því í hvaða aðildarríki þeir starfa. Markmiðið er að draga jafnt og þétt úr úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda, eða frá 80% árið 2013 niður í 30% árið 2020. Úthlutunin byggir á árangursviðmiði (e. benchmark) sem ákvarðað hefur verið, sbr. ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/278/ESB. Þar eru skilgreindar fjórar gerðir árangursviðmiða, framleiðsluviðmið (e. product benchmark), varmaviðmið (e. heat benchmark), eldsneytisviðmið (e. fuel benchmark) og losun frá framleiðsluferli (e. process emission). Mismunandi árangursviðmið taka mið af mismunandi ferlum og aðstæðum í starfsstöðvum og starfsstöðvarhlutum, en ógjörningur er að nota almenn viðmið sökum þess hve margvíslegar tegundir starfsemi heyra undir gildissvið viðskiptakerfisins. Gert er ráð fyrir að geirar eða undirgeirar sem er sérstaklega hætt við svonefndum kolefnisleka fái hlutfallslega fleiri losunarheimildum úthlutað endurgjaldslaust en aðrir geirar, eða 100% af hlutdeild þeirra miðað við árangursviðmið. Með kolefnisleka er átt við að viðskiptakerfið leiði til mikillar hækkunar á framleiðslukostnaði fyrirtækja m.a. vegna hærra raforkuverðs og hamli samkeppni þeirra við fyrirtæki í ríkjum utan ESB. Gefinn er út sérstakur listi yfir geira sem hætt er við kolefnisleka  og er öll starfsemi á Íslandi sem fellur undir viðskiptakerfið frá 2013 á þeim lista og mun því fá hlutfallslega fleiri losunarheimildum úthlutað endurgjaldslaust á tímabilinu 2013–2020 en almenna reglan segir til um. 

Útreikningur á úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda fer þannig fram að fyrirtæki í kerfinu skila upplýsingum um starfsemi sína á tímabilinu 1. janúar 2005 til 31. desember 2008 eða 1. janúar 2009 til 31. desember 2010, eftir því hvort tímabilið gefur hærri tölur. Út frá þessum upplýsingum er reiknuð út sögulega starfsemi hverrar starfsstöðvar á viðkomandi tímabili í samræmi við aðferðafræði sem fram kemur í ákvörðuninni. Þegar söguleg starfsemi hverrar starfsstöðvar hefur verið fundin út er hún margfölduð með viðeigandi árangursviðmiði og að teknu tilliti til kolefnisleka fæst bráðabirgðafjöldi losunarheimilda sem úthluta ber viðkomandi starfsstöð.

 Ríkjum bar fyrir 30. september 2011 að senda framkvæmdastjórninni niðurstöður sínar um bráðabirgðafjölda losunarheimilda í formi lista sem kallast á ensku „national implementation measures (NIMs)“. Nokkrar tafir urðu á gerð listans í flestum ríkjum ESB. Framkvæmdastjórninni ber í kjölfarið að reikna út leiðréttingarstuðul sem liggur þvert á geira (e. cross-sectoral correction factor), en hann hefur verið nefndur almennur leiðréttingarstuðull. Búist var við að stuðullinn yrði reiknaður út á haustmánuðum 2012, en það hefur dregist. Almenna leiðréttingarstuðlinum er ætlað að tryggja að heildarfjöldi losunarheimilda samkvæmt útreikningum ríkjanna fari ekki fram úr hámarksfjölda losunarheimilda sem úthlutað verður endurgjaldslaust til staðbundinnar starfsemi í kerfinu árlega frá árinu 2013. Ef framkvæmdastjórnin hafnar ekki útreikningum ríkis tekur ríkið í kjölfarið endanlega ákvörðun um úthlutun til hverrar starfsstöðvar, reiknaða í samræmi við almennan leiðréttingarstuðul ef þarf. 

Umhverfisstofnun hefur safnað upplýsingum frá öllum viðkomandi rekstraraðilum og sent listann um bráðabirgðafjölda losunarheimilda (NIMs) til Eftirlitsstofnunar EFTA til undirbúnings fyrir þátttöku þessara rekstraraðila í viðskiptakerfinu, en sú stofnun fer með hlutverk framkvæmdastjórnarinnar í tilviki EFTA-ríkjanna. Búist er við að framkvæmdastjórnin geti lokið sinni vinnu við lista aðildarríkjanna á næstu vikum og gefið út almenna leiðréttingarstuðulinn. Þegar hann hefur verið gefinn út, getur Umhverfisstofnun tekið ákvörðun um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til þeirra fyrirtækja sem taka þátt í kerfinu hérlendis. Þess má geta að skv. lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál, bar Umhverfisstofnun að taka þessa ákvörðun 15. nóvember síðastliðinn, en af því gat ekki orðið vegna fyrrnefndra tafa við ákvörðun almenna leiðréttingarstuðulsins. 

Úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til nýrra þátttakenda

Samkvæmt viðskiptatilskipuninni (2003/87/ESB) skulu 5% af heildarfjölda losunarheimilda í kerfinu sett í sérstakan sjóð fyrir svokallaða nýja þátttakendur. Rekstraraðilar sem teljast nýir þátttakendur í staðbundinni starfsemi geti sótt um losunarheimildir úr þessum sjóði til Umhverfisstofnunar. Með nýjum þátttakanda er átt við starfsstöð sem stundar eina eða fleiri tegundir starfsemi sem heyrir undir viðskiptakerfið og hefur fengið losunarleyfi eftir 30. júní 2011 eða starfsstöð sem stækkar umtalsvert eftir 30. júní 2011, þó eingöngu að því er varðar viðkomandi stækkun. Skilyrði úthlutunar eru að starfsemi eða framleiðsluaukning teljist raunverulega hafin og er í því samhengi miðað við svokallaðan upphafsdag nýrrar starfsemi eða upphafsdag framleiðsluaukningar. Það er einnig skilyrði að svokölluð upphafsframleiðslugeta hafi verið skilgreind. Þessi viðmið eru útfærð og skilgreind nánar í ákvörðun 2011/278/ESB. Almennt má segja að upphafsdagur nýrrar starfsemi eða framleiðsluaukningar sé fyrsti dagur 90 daga tímabils þar sem framleiðslustig eða viðbætt framleiðslustig er að minnsta kosti 40% af hönnunarframleiðslustigi eða viðbættu hönnunarframleiðslustigi. Sótt er um á sérstöku eyðublaði sem hægt er að nálgast hjá Umhverfisstofnun. Útreikningur á úthlutun úr þessum sjóði skal sendur framkvæmdastjórninni (eða ESA) og ef hún hafnar honum ekki skal ríkið ákveða endanlega úthlutun, þá með hliðsjón af stuðli fyrir línulegan samdrátt. Úthlutun úr sjóði fyrir nýja þátttakendur er háð því að losunarheimildir séu eftir í sjóðnum. Fram kemur í 4. mgr. 19. gr. ákvörðunar 2011/278/ESB að úthlutunin byggist á reglunni „fyrstur kemur, fyrstur fær“. Þegar helmingi losunarheimilda í sjóðnum hefur verið úthlutað skal framkvæmdastjórnin meta hvort æskilegt sé að ákveða viðmið til að raða umsækjendum í röð til að tryggja sanngjarnan aðgang að sjóðnum. 

Enn hefur ESB ekki ákveðið endanlega hvenær fyrst verður hægt að sækja um úthlutun úr sjóði fyrir nýja þátttakendur í staðbundinni starfsemi, en gert er ráð fyrir að það verði á árinu 2013.

Samkvæmt lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál ber rekstraraðilum að vakta losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni í samræmi við vöktunaráætlun og skila árlega skýrslu um losunina til Umhverfisstofnunar. Slík skýrslugjöf er forsenda þess að unnt sé að ákvarða fjölda losunarheimilda sem rekstraraðili skal standa skil á vegna viðkomandi árs. Skýrslan skal vottuð af óháðum vottunaraðila. 

Á viðskiptatímabilinu 2013 – 2020 ber rekstraraðilum að vakta losun í samræmi við vöktunaráætlanir sem uppfylla kröfur reglugerðar 601/2012/ESB. Slíkum vöktunaráætlunum skal skila til Umhverfisstofnunar fyrir 5. desember 2012. Umhverfisstofnun skal samþykkja áætlunina fyrir 31. desember 2012, þannig að vöktun í samræmi við áætlunina geti hafist 1. janúar 2013. Vöktunaráætlunum skal skilað á eyðublöðum sem Umhverfisstofnun hefur látið viðkomandi aðilum í té. 

Framkvæmdastjórn ESB hefur látið útbúa leiðbeinandi skjöl, til að auka skilning á reglugerð 601/2012/ESB og samræmingu á útfærslu hennar innan aðildarríkja.

Skýrsla rekstraraðila um losun gróðurhúsalofttegunda skal vottuð af aðila sem hefur hlotið til þess viðeigandi faggildingu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hlutverk vottunaðila er að tryggja að skýrsla rekstraraðila uppfylli þær kröfur sem um hana gilda og skal hann vera óháður rekstraraðila og gæta hlutleysis í störfum sínum. Sjá nánar reglugerð nr. 131/2013 um vottun og viðurkenningu vottunaraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. 

Enn sem komið er hefur enginn vottunaraðili hlotið faggildingu hér á landi til að votta skýrslur rekstraraðila í viðskiptakerfinu. Fyrirtækjum sem hafa áhuga á slíkri faggildingu er bent á að hafa samband við faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar (ISAC). 

 Rekstraraðilum sem heyra undir kerfið er heimilt að leita til erlendra vottunaðila, að því gefnu að þeir hafi hlotið faggildingu í samræmi við reglur kerfisins. Á listanum hér fyrir neðan er að finna nöfn vottunaraðila sem Umhverfisstofnun hefur staðfest að uppfylli sett skilyrði. Ef vottunaraðila sem rekstraraðili vill leita til er ekki getið á listanum skal senda Umhverfisstofnun faggildingarskjal (accreditation certificate) vottunaraðilans á ensku eða Norðurlandamáli (öðru en finnsku) og óska eftir því að honum verði bætt á listann. 

 Listi yfir vottunaraðila: 

Ernst & Young Associés (France)

 • 41 Rue Ybry
 • 92200 Neuilly Sur Seine cedex
 • Tel: +33-146937548 
 • Fax: +33-158472427
 • Website: www.ey.com 
 • Umboðsaðili á Íslandi: Ernst & Young ehf. 
 • Borgartún 30
 • 105 Reykjavík 
 • Tel: +354 595 2500 

BSI 

 • Kitemark Court 
 • Davy Avenue 
 • Knowlhill 
 • Milton Keynes 
 • MK5 8PP UK 
 • Tel: +44 (0)845 080 9000 
 • Fax: +44 (0)1908 228060 
 • Website: www.bsigroup.com 
 • Umboðsaðili á Íslandi: BSI á Íslandi 
 • Skipholti 50c 
 • 105 Reykjavík 
 •  Sími: +354 414 4444

Det Norske Veritas

Losunarstuðlar kolefnis og nettóvarmagildi úr losunarbókhaldi Íslands til stuðnings rekstaraðila starfsstöðva í ETS

Upplýsingarnar í tenglinum hér að neðan eru settar fram til að styðja við rekstraraðila í viðskiptakerfi Evrópusambandsins sem nota losunarstuðla fyrir aðferðaþrep 2a og 2b til að reikna út losun á koltvísýringi (sbr. rg. 72/2013 um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir).                 

Losunarstuðlarnir eru að mestu fengnir úr bókhaldi Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti (NIR skýrslu ársins 2015/2016) sem skilað er árlega til rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.                       

Stuðlana í þessu skjali skal nota í samræmi við kröfur í vöktunaráætlun og losunarleyfi starfstöðvarinnar í samræmi við reglugerð 72/2013 um vöktun og skýrslugjöf.                            

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira