Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Vöktun forgangsefna og vaktlistaefna


Mynd: Bláhylur / Fernando Puente

Rannsóknir hafa sýnt að töluvert af lyfjum berst út í umhverfið með frárennsli hér við land t.d. frá fráveitu, þéttbýlum, atvinnustarfsemi og landbúnaði. Efni í umhverfi eru því allt umlykjandi og oft á tíðum mikilvægur hluti í því að tryggja vellíðan fólks, vernda heilsu okkar, dýra og umhverfisins. Efni eru hluti af tæknilegri framþróun meðal annars í því að ná fram loftslagshlutleysi og með nýsköpun í efnum og vörum. En á sama tíma geta þessi sömu efni verið hættuleg og valdið mönnum, dýrum og umhverfi skaða. Sum þeirra geta valdið sjúkdómum s.s. krabbameini, haft áhrif á ónæmiskerfi, hormónakerfi, hjarta- og æðakerfi og aukið næmi fyrir öðrum sjúkdómum. Mengun af völdum efna hefur því verið skilgreind sem ein af helstu ógnum jarðarinnar með því að hafa áhrif á t.d. hnignun vistkerfa og líffræðilegan fjölbreytileika.

Samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála skal vakta forgangsefni (e. priority substances) og vatktlistaefni (e. watchlist) í vatni. Reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun setur fram frekari kröfur um vöktunina m.t.t. efna á forgangsefnalista. Markmið laga um stjórn vatnamála er að allt yfirborðsvatn sé í a.m.k. góðu líffræðilegu ástandi og góðu efnafræðilegu ástandi og grunnvatn skal hafa góða magnstöðu og vera í góðu efnafræðilegu ástandi. Til að skera úr um ástand vatnshlota er nauðsynlegt að vakta ástand þeirra og tryggja að gæði vatns rýrni ekki, sérstaklega þar sem álag er til staðar.

Vaktlistaefni

Efni á svokölluðum vaktlista eru efni sem talin eru geta verið skaðleg umhverfinu en upplýsingar um þau eru ekki nægilegar til þess að meta hættuna. Efnin eru því sett á þennan vaktlista og aðildarríki vakta þau og skila árlega niðurstöðum. Sem dæmi um efni á vaktlista má nefna lyfjaleifar og varnarefni.

Vaktlistaefni eru vöktuð í a.m.k 2 ár eða þar til hægt er að meta hættu og umhverfisáhrif efnanna. Vaktlistinn styrkir grundvöll fyrir ákvarðanatöku framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við val á nýjum efnum á forgangsefnalista, ásamt því að styðja við mat á ástandi vatnshlota. Listinn er uppfærður á tveggja ára fresti en hvert efni er aðeins fjögur ár á listanum. Að þeim tíma loknum er ákvörðun tekin um það hvort efni skuli skilgreint sem forgangsefni, og því bætt á forgangsefnalista, eða ákvörðun tekin að ekki sé talin mikil hætta af notkun efnisins og vöktun þess lokið.

Við val á nýjum efnum á vaktlistann tekur framkvæmdarstjórnin mið af rannsóknum, tillögum hagsmunaaðila, eiginleikum vatnaumdæma og niðurstöðum vöktunar, notkunarmynstri, eiginleikum, framleiðslumagni og dreifingu efnanna. Fjórir vaktlistar hafa verið gefnir út.

Umhverfisstofnun stendur fyrir vöktun á vaktlistaefnum á haustin á völdum sýnatökustöðum (árin 2018, 2019, 2021 og 2022), bæði á stöðum þar sem mannleg umsvif eru tilstaðar í ríku mæli en einnig á stöðum þar sem grunur leikur á því að efnin finnist en uppruni er óljós. Sýnatökur hafa farið fram í Varmá, Tjörninni í Reykjavík, Klettagörðum, Mývatni, Kópavogslæk og Nauthólsvík. Efnin sem skimað er eftir eru margskonar t.d. skordýraeitur, hormón, hjarta- og blóðþrýstingslyf, sýklalyf, geðlyf og bólgueyðandi lyf.

Forgangsefni

Forgangsefni eru þau efni og efnasambönd sem hafa verið skilgreind sem hættuleg og þrávirk og valda alvarlegri mengun eða eitrun í vatni og umhverfi. Þrávirk efni geta safnast upp í lífverum og haft eitrandi áhrif á þær, fæðukeðjur þeirra og umhverfi.

Til þess að draga úr losun og notkun á þessum efnum hefur Evrópusambandið gefið út lista af 45 forgangsefnum (tilskipun nr. 2008/105/ESB) sem vakta skal í vatni.

Tilskipunin var innleidd í EES samninginn og lögleidd í reglugerð nr. 982/2015 um breytingu á reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Forgangsefnin og umhverfismörk þeirra má finna í A hluta III viðauka reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Með vöktun og markvissum aðgerðum er ætlunin að draga úr mengun af völdum efna á forgangsefnalistanum.

Vöktun á forgangsefnum hófst í upphafi árs 2019 en um ræða efni sem eru eitruð og hættuleg. Efnin og efnasamböndin sem um ræðir eru alls 45 og flokkast niður í málma, varnarefni, PAH efni, PBDE efni og mýkingarefni fyrir plast. Lista yfir efnin er að finna í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Vatnssýni voru tekin á eftirfarandi stöðum: Mývatni, Þingvallavatni, Eiðisvatni, Tjörninni í Reykjavík, Varmá í Ölfusi, Þjórsá, Ölfusá, Í sunnanverðum Faxaflóa vestan við Kjalarnes, Eyjafirði innanverðum, Pollinum í Skutulsfirði, innanverðu Viðeyjarsundi í Reykjavík og í Kópavogslæk.

Við getum öll lagt okkar af mörkum

Mikilvægt er að hafa í huga að þó svo að sum þeirra efna sem finnast í umhverfinu eru okkur lífsnauðsynleg þá eru önnur sem við getum lagt okkur fram við að minnka notkun á eða komið þeim í viðeigandi förgun. Í mörgum tilfellum er hægt að minnka eða sleppa notkun skordýraeiturs og velja umhverfisvænni lausnir í staðin. Jafnframt er hægt að draga úr bílaþvotti og þá sér í lagi við heimahús þar sem viðeigandi mengunarvarnarbúnaður er ekki til staðar og frárennslið fer beint ofan í næsta niðurfall. Algengt er að niðurföll leiði frárennsli beint út í næsta læk t.d. víða á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt er mjög mikilvægt að koma öllum lyfjaafgöngum til förgunar í apótekum og sturta aldrei niður lyfjum eða mengandi efnum í salerni. Ávallt skal koma slíkum efnum í viðeigandi förgun.

Hægt er að nálgast samantekt um vöktun efna í vatni 2018 – 2022 í skýrslu Umhverfisstofnunar hér.