Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Vöktunaráætlanir og skipulagning vöktunar


Mynd: Haraldur Hugosson - Unsplash

Samhliða vatnaáætlun 2022 – 2027 er gerð vöktunaráætlun. Vöktun samkvæmt vöktunaráætlun á að tryggja vitneskju um ástand vatns á landinu, kortleggja langtímabreytingar og stuðla að áreiðanlegu mati á álagi á vatnsauðlindina. Í lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála kemur fram að í vöktunaráætlun skuli fjalla um tíðni vöktunar og þéttleika vöktunarstaða og skuli áætlunin nýtast til að veita heildarsýn á ástand vatnshlota. Henni er auk þess ætlað að varpa ljósi á áhrif nauðsynlegra aðgerða sem kann að þurfa að grípa til. Í vöktunaráætlun eru settir fram þeir þættir sem nota skal til vöktunar og hafa verið staðfestir og settir fram í vatnaáætlun svo hægt sé að meta ástand vatns ásamt þeirri lágmarkstíðni vöktunar sem krafist er.

Margskonar starfsemi og framkvæmdir geta valdið álagi á vatnshlot og jafnvel orðið til þess að vatnshlotin nái ekki þeim umhverfismarkmiðum sem hafa verið sett fyrir þau. Samkvæmt lögum um stjórn vatnamála má ástand vatnshlota ekki hnigna, hvorki tímabundið né varanlega. Það er því mjög mikilvægt þegar hefja á starfsemi eða framkvæmdir að strax í upphafi sé hugað að áhrifum á vatnshlot. Við það mat er grundvallarforsenda að vita hvert ástandið er og vakta þau vatnshlot sem verða fyrir áhrifum. Í starfsleyfum og vöktunaráætlunum fyrirtækja er oft gerð krafa um vöktun og er því mikilvægt að gæta að stefnumörkun vatnaáætlunar í öllum slíkum leyfum og áætlunum.

Helsti tilgangur vöktunar vatnshlota samkvæmt stjórn vatnamála er að afla gagna til að meta ástand þeirra. Í tilfelli yfirborðsvatnshlota er átt við mat á efnafræðilegu og vistfræðilegu ástandi og í tilfelli grunnvatnshlota er átt við efnafræðilegt ástand og magnstöðu. Mikilvægt er að fá vöktunargögn yfir þá gæða- og vöktunarþættir sem ákveðið hefur verið að nota til að segja til um ástand vatnsins samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.

Í töflunni hér að neðan er yfirlit yfir þá líffræðilegu, efna- og eðlisefnafræðilegu gæðaþætti sem á að vakta til að meta vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand yfirborðsvatnshlota.

 

Stöðuvötn Straumvötn Strandsjór
Líffræðilegir gæðaþættir Svifþörungar
  Blaðgræna a
Botnþörungar
  Blaðgræna a
Svifþörungar
  Blaðgræna a
Hryggleysingjar
  Fjöldi tegunda
  Shannon fjölbreytileiki
  Shannon jafndreifni
Hryggleysingjar
  Fjöldi tegunda
  Shannon fjölbreytileiki
  Shannon jafndreifni
Hryggleysingjar á mjúkum botni
  Gæðavísirinn NQI1
Vatnaplöntur
   TIc næringarefnastuðull
Ekki til kerfi Þörungar á hörðum botni
  Tegundafjölbreytni
   Hlutfall grænþörunga
   Hlutfall rauðþörunga
   Hlutfall tækifæristegunda

Efna- og eðlisefnafræðilegir gæðaþættir Sýrustig (pH) Sýrustig (pH) Næringarefni
  NO3
  PO4
Súrefni Súrefni
Basavirkni Basavirkni
Leiðni Leiðni
Næringarefni
  NO3
  NH4
  PO4
Sjóndýpi
Næringarefni
  NO3
  NH4
  PO4
  
Forgangsefni Forgangsefni Forgangsefni

Hér er hægt að nálgast leiðbeiningar um sýnatökur á þeim gæðaþáttum sem eru settir fram í töflunni hér að ofan.

Við skipulagningu vöktunar er mjög mikilvægt að þekkja áhrif þeirrar starfsemi eða framkvæmda sem mun hafa áhrif á vatnshlot. Tíðni vöktunar, val á vöktunarstöðum og val á gæðaþáttum þarf að vera í samræmi við þau áhrif á álagi sem vænta má. Mikilvægt er að gera sérstaka staðbundna verklýsingu fyrir hvert vatnshlot sem á að vakta. Slík verklýsing þarf ekki að vera löng eða ítarleg, Í lýsingunni eru frekari upplýsingar um vatnshlotið sem á að vakta á. Sem einfalt dæmi má nefna:

  • heiti og númer vatnshlots
  • hver framkvæmir sýnatökuna
  • dagsetning sýnatöku
  • í hvaða tilgangi vöktun fer fram
  • hvaða gæða- og matsþættir eru vaktaðir
  • yfirlitsmynd yfir vöktunarsvæði
  • fjölda sýnatökustöðva
  • fjöldi sýna
  • tíðni vöktunarinnar
  • skrá niður tegundur (á t.d. við um kortlagningu gróðurs)
  • ýmis ítaratriði (ljósmyndir, lýsing á aðstæðum, veðuraðstæður osfrv.)
  • hvert er niðurstöðum vöktunar skilað

Áður en vöktunaráætlun vatnaáætlunar var gefin út árið 2022 voru sérstaklega útgefnar tvær vöktunaráætlanir, annarsvegar fyrir Mývatn og hinsvegar fyrir Þingvallavatn. Þessi tvö vatnshlot eru á lista yfir vernduð og viðkvæm svæði samkvæmt lögum um stjórn vatnamála og vegna sérstöðu þeirra og viðkvæmrar stöðu var ákveðið að gera sérstaklega vöktunaráætlun fyrir þau.

Vöktunaráætlun Mývatns

Vöktunaráætlun Þingvallavatns

Niðurstöður vöktunar eðlisefnafræðilegra gæðaþátta í Þingvallavatni árið 2020