Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Fulltrúar 140 ríkja skrifuðu í janúar undir alþjóðlegan samning um að draga úr notkun kvikasilfurs og þá jafnframt losun þess út í umhverfið. Samningurinn heitir eftir japönsku borginni Minamata þar sem þúsundir manna urðu fyrir alvarlegri kvikasilfurseitrun vegna losunar kvikasilfurs með frárennsli frá efnaverksmiðju í grenndinni. 

Notkun kvikasilfurs og efnasambanda þess er mikil og er stundum óhjákvæmileg eins og í sparperum en flest allri notkun þess í dag mætti stöðva ef efnahagslegar forsendur eru fyrir hendi. Samningurinn er ekki síst hugsaður til að sporna gegn kvikasilfursmengun í þróunarlöndum þar sem notkun þess er enn vandamál á meðan að í iðnríkjum hefur tekist að skipta því út fyrir hættuminni en oft á tíðum dýrari efni. Kvikasilfur er t.a.m. notað við að vinna gull á frumstæðan hátt í gullnámum og getur haft alvarleg áhrif á heilsu þeirra sem við það vinna. Það er sú notkun sem í dag er talin valda mestri kvikasilfursmengun af mannavöldum. 

Með samningnum er tryggð fjármögnun til handa fátækari ríkjum svo að stöðva megi óþarfa notkun kvikasilfurs, stuðla að tækniframförum og til að miðla þekkingu um hvernig komast má hjá notkun þess. Með samningnum skal námavinnslu á kvikasilfri hætt með því að sjá til þess að engar nýjar námur verði teknar í notkun, tryggja skal að það verði geymt með öruggum hætti og að förgun þess hafi ekki í för með sér umhverfisspjöll. 

Mikil kvikasilfursmengun verður til við bruna jarðefnaeldsneytis. Það á sérstaklega við um kolaorkuver en jafnframt iðnað eins og málmbræðslur, sementsverksmiðjur og sorpbrennslustöðvar. Samningurinn kveður á um að nýjar stöðvar myndu beita bestu aðgengilegu tækni við að hindra losun kvikasilfurs frá slíkri starfsemi.