Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Samstarfsnefnd um stækkun friðlands í Þjórsárverum auglýsir hér með til kynningar drög að friðlýsingarskilmálum vegna stækkunar friðlandsins.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Þjórsárver voru fyrst friðlýst sem friðlandi árið 1981. Smávægilegar lagfæringar voru gerðar á markalýsingu friðlandsins og tók ný auglýsing um friðland í Þjórsárverum gildi árið 1987. Árið 1990 voru Þjórsárver skráð á lista Ramsarsamningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði, einkum vegna fuglalífs. 

Þjórsárver eru víðáttumikil gróðurvin á miðhálendinu og mikilvægt búsvæði dýra- og plöntutegunda. Þar hafa til að mynda fundist alls 167 tegundir háplantna, en það er rúmlega þriðjungur íslensku flórunnar. Í verunum eru mikilvægar varpstöðvar heiðagæsa. Þar er að finna svokallaða rústamýrarvist sem er sjaldgæf og með mjög hátt verndargildi. Þá eru þar einnig merkar menningarminjar, en réttir sem notaðar voru við gæsaveiðar til að smala gæsum í sárum eru margar í verunum.

Markmið með stækkun friðlandsins í Þjórsárverum er að tryggja víðtæka og markvissa verndun auk fræðslu til almennings um verndargildi svæðisins. Meðal þeirra þátta sem horft er til hvað verndun varðar eru:
  • gróðurlendis Þjórsárvera í heild sinni 
  • vistkerfi veranna 
  • varpstöðvar heiðagæsar 
  • víðernis og sérstakrar landslagsheildar, m.a. samspils jökuls og jökullandslags við gróðurlendið í verunum 

Í samstarfsnefndinni sem unnið hefur að tillögum um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum eiga sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, Akrahrepps, Ásahrepps, Bláskógabyggðar, Eyjafjarðarsveitar, Hrunamannahrepps, Húnavatnshrepps, Rangárþings ytra, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Með nefndinni starfaði einnig hópur sérfræðinga. 

Tillaga um mörk og skilmála friðlýsingarinnar er hér með auglýst og óskað eftir athugasemdum, en drögin eru kynnt með fyrirvara um samþykkt allra sveitarfélaganna. 

Haldnir verða tveir opnir kynningarfundir: 

  • 18. mars kl. 15:00 í Hótel Varmahlíð  
  • 19. mars kl. 14:00 í Árnesi, Skeiða- og Gnúpverjahrepp 

Frestur til að skila athugasemdum er til 3. apríl 2013 og skal þeim skilað í gegnum heimasíðu Umhverfisstofnunar. 

Tengd skjöl