Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun skilaði í gær skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá árinu 1990 til 2011 til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslunni (sem er á ensku) er að finna ítarlegar upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og hvernig þróun losunar hefur verið frá 1990. Þá er aðferðafræði við útreikninga lýst. Skýrslan er 334 síður.

Árið 1990 var losun gróðurshúsalofttegunda á Íslandi 3,5 milljónir tonna CO2-ígilda. Árið 2011 var losunin 4,5 milljónir tonna CO2-ígilda og hefur losun því aukist um 26% frá árinu 1990. Losunin dróst hins vegar saman um 4% frá árinu 2010 og má einkum rekja þá minnkun til minni losunar frá álframleiðslu (bæði dróst PFC losun talsvert saman milli ára og eins var losun CO2 minni vegna örlítið minni framleiðslu árið 2011 en 2010), og minni losunar frá fiskiskipum. Losunin var mest árið 2008, eða tæplega 5 milljónir tonna CO2-ígilda. Síðan þá hefur losun dregist saman um 13%. Þessa minnkun má einkum rekja til minni losunar frá stóriðju þar sem myndun PFC í álverum hefur minnkað vegna betri framleiðslustýringar, en einnig til minni eldsneytisnotkunar við byggingarstarfsemi, við fiskveiðar, og í samgöngum. Ennfremur hefur sementsframleiðsla dregist saman og losun frá landbúnaði minnkað þar sem notkun tilbúins áburðar hefur dregist saman (verð á áburði hefur hækkað umtalsvert síðastliðin ár). Minni losun á sér því helst tvær skýringar, annars vegar bætt framleiðslustýring í álverum og hins vegar áhrif samdráttar í hagkerfinu frá 2008. Losun á hvern íbúa á Íslandi árið 2011 var 13,8 tonn, en meðaltal ríkjanna á EES-svæðinu (ESB-24 og Ísland, Liechtenstein og Noregur) var 10,5 tonn.

Ísland er skuldbundið til þess að halda sig innan tiltekinna marka varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt spám Umhverfisstofnunar mun Ísland standa við sínar skuldbindingar gagnvart Kyoto-bókuninni.

Útreikningar á losun Íslands fyrir árið 2012 munu liggja fyrir í lok þessa árs eða byrjun árs 2014. Útlit er fyrir að heildarlosun á Íslandi fyrir tímabilið 2008 til 2012 verði nálægt 23,5 milljónum tonna CO2-ígilda. Ísland þyrfti því að nýta um 3,5 milljónir tonna af þeim 8 milljónum sem mætti nýta skv. íslenska ákvæðinu (14/CP.7 við Kýótóbókunina, sjá nánar að neðan).

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi

Árið 2011 nam heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi 4,5 milljónum tonna CO2-ígilda. (CO2-ígildi ýmissa efna eru reiknuð út frá því hve mikil gróðurhúsaáhrif þau hafa miðað við CO2. Þannig er hlýnunarmáttur PFC (m.v. 100 ár) 6500-9200 miðað við CO2.)Þar af falla 1,2 milljónir tonna undir íslenska ákvæðið. Losun utan við íslenska ákvæðið, var því samtals rúmlega 3,4 milljónir tonna. Tveir flokkar losunar eru langstærstir hérlendis og nam losun frá þeim árið 2010 samtals 64% af heildarlosuninni. Losun vegna iðnaðar (eldsneytisbrennsla og iðnaðarferlar) er samtals 47% og vegna samgangna 19% eins og sjá má á eftirfarandi mynd.

Í loftslagssamningnum eru allar tölur miðaðar við árið 1990 sem grunnár. Losun það ár var 3,5 milljónir tonna CO2-ígilda og hefur hún því aukist um 26% á tímabilinu 1990 til 2011. Mest hefur aukningin verið í iðnaði (74%) og munar þar mest um aukna losun frá áliðnaði (142%) og vegna járnblendiframleiðslu (81%). Aukning vegna samgangna er 39%, en losun frá vegasamgöngum hefur aukist um 56% á sama tíma og losun frá flugi og siglingum hefur dregist saman. Nokkur aukning hefur einnig verið vegna meðhöndlunar úrgangs og vegna rafmagns- og hitaframleiðslu (jarðvarmavirkjanir), en þar sem losun frá þessum geirum er lítil hefur það minni áhrif á heildaraukninguna. Losunin hefur hins vegar dregist saman um 31% í sjávarútvegi og um 9% í landbúnaði. Þetta má sjá á mynd hér fyrir neðan.

Losunarheimildir Íslands

Á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar frá 2008 til 2012 nema losunarheimildir Íslands rúmlega 18,5 milljónum tonna CO2-ígilda. Þetta jafngildir því að árleg losun skuli að meðaltali nema um 3,7 milljónum tonna. Heimilt er að gefa út bindingareiningar vegna aðgerða í landgræðslu og skógrækt. Þær einingar sem Ísland getur gefið út vegna bindingar kolefnis með landgræðslu og skógræktar á tímabilinu 2008 til 2012 munu verða um 1,5 milljón. Heildarfjöldi losunarheimilda Íslands mun því vera um 20 milljónir. Samkvæmt íslenska ákvæðinu (14/CP.7 við Kyoto-bókunina) er Íslandi svo heimilt að halda losun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvera utan við losunarskuldbindingar sínar eftir að losunarheimildir hafa verið fullnýttar, samkvæmt tilteknum reglum. Heildarmagnið sem halda má utan við losunarheimildirnar nemur samtals 8 milljónum tonna á fyrsta skuldbindingartímabilinu, eða að meðaltali 1,6 milljónum tonna á ári. Sérstakar reglur gilda um hvaða losun falli undir íslenska ákvæðið.

Ítarefni