Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Ársfundur Umhverfisstofnunar 2013 var haldinn þann 19. apríl á Grand Hótel í Reykjavík. Á fundinum,sem bar heitið „Hvað gerist á 10 árum í umhverfismálum?" var farið yfir uppgjör stefnumótunartímabilsins 2008-2012 og kynnt ný stefna og skipulag Umhverfisstofnunar fyrir tímabilið 2013-2017. Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra flutti ávarp og fundarstjóri var Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdarstjóri Landverndar.

Fjölmenni var á fundinum þar sem flutt voru fjölmörg erindi um árangur þeirra breytinga sem ráðist var á undangengnum árum. Hægt er að horfa á upptöku frá fundinum á vefnum en hann var sendur út í beinni útsendingu og til viðbótar við þá tæplega 200 sem sóttu fundinn fylgdust um 60 manns með útsendingunni. 

Í fyrsta sinn var fundurinn textaður í vefútsendingu. Þar var reynt að bæta við aðalatriðum í máli þeirra sem fluttu erindi sem ekki komu fram á glærum. Stofnunin stefnir að því að þróa og bæta þessa þjónustu á næstu misserum.

Ari Eldjárn var með uppistand í lok fundar og vakti mikla lukku.