Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Á sýningu Umhverfisstofnunar sem sett er upp í tjaldi á Grandagarði er meðal annars fjallað um áhrif rusls á lífríki í hafinu. Rusl sem við mennirnir hendum frá okkur á víðavangi eða götum úti getur haft skaðleg og alvarleg áhrif á lífríkið. Sjófuglar og sjávardýr taka plast oft í misgripum fyrir fæðu. Dýr geta einnig fest sig í ýmsum hlutum sem annað hvort er hent í sjóinn eða berast til hafs, eins og netum og plasthringjum af dósakippum. Auk þess er rusl í fjörum, sem og annars staðar í umhverfinu, til mikilla lýta og rýrir útivistargildi svæða. Því er mikilvægt að við hendum ekki frá okkur rusli nema í þar til gerð ílát.

Óhreinsað skólp getur haft áhrif á nýtingu strandsvæða til útivistar og ferðamennsku. Í Reykjavík og nágrenni er fyrsta stigs hreinsun á skólpi, en víða um land er engin hreinsun á skólp.

Lyfjaleifar geta borist út í umhverfið með skólpi og í skólpi á Íslandi hafa meðal annars fundist leifar af verkja- og bólgueyðandi lyfjum, hjartalyfjum og þvagræsilyfjum. Þekkt er að lyfjaleifar geta haft hormónaraskandi áhrif.

Ýmsar snyrti- og hreinlætisvörur innihalda efnis em geta haft skaðleg áhrif á heilsu og umhverfi. Þessi efni berast út í umhverfið með vatni sem við notum í okkar daglega lífi. Það er því mikilvægt að við vönduð vel valið á slíkum vörum og notum í hófi sápur, krem, snyrtivörur og aðrar vörur sem í geta verið skaðleg efni.

Auk þess að kynna sér fræðsluefni um málefni hafsins geta gestir spreytt sig á getraun um hreinsun skólps og efni í skólpi. Þá verður til sýnis mengunarvarnabúnaður sem nýttur er þegar olíuóhapp á sér stað.