Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhjúpaði í dag skjöld á Breiðabakka á Heimaey í Vestmannaeyjum til staðfestingar á því að Surtsey er á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Í næsta mánuði eru fimm ár liðin frá því að eyjan var samþykkt inn á listann.

Skjöldurinn er staðsettur á Breiðabakka á Heimaey þar sem sjá má til Surtseyjar. Eftir ávarp ráðherra skoðuðu gestir framkvæmdir við Eldheima, nýtt sýningarhús sem verið er að byggja utan um minjar frá eldgosinu í Heimaey. Að því loknu bauð Umhverfisstofnun til móttöku í gestastofu friðlandsins, Surtseyjarstofu, þar sem er að finna sýningu um eyjuna og þær rannsóknir sem þar fara fram.

Fimmtíu ár eru í ár liðin frá því að Surtseyjargosið hófst og í dag eru 46 ár síðan því lauk. Surtsey var samþykkt á heimsminjaskrá UNESCO þann 8. júlí 2008 á grundvelli mikilvægi rannsókna og vöktunar á landnámi dýra og plantna ásamt þróun eyjarinnar og framvindu lífríkis Surtseyjar. Sú framsýni íslenskra stjórnvalda að friðlýsa Surtsey, ásamt þeim rannsóknum og vöktunum á lífríki og jarðfræði eyjarinnar sem þar hafa farið fram frá upphafi, á stóran þátt í því að Surtsey var samþykkt á heimsminjaskrána.

Myndir