Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Birtingaréttur aðeins fyrir stækkun friðlandsins 2013
Í gær, fimmtudaginn 20. júní, barst umhverfis- og auðlindaráðuneytinu erindi frá Landsvirkjun þar sem fram komu athugasemdir við málsmeðferð vegna undirbúnings friðlýsingar á stækkuðu friðlandi Þjórsárvera. Jafnframt bárust athugasemdir frá tveimur sveitarfélögum. Umhverfisstofnun hefur í langan tíma unnið að undirbúningi friðlýsingarinnar og stofnaði samstarfsnefnd í byrjun árs 2010 með fulltrúum viðkomandi sveitarfélaga. Stofnunin auglýsti opinberlega skilmála friðlýsingarinnar, án lagaskyldu, til athugasemda. Þá voru haldnir tveir opinberir kynningarfundir í mars á þessu ári vegna fyrirhugaðrar stækkunar. Farið var yfir allar athugasemdir sem bárust á fundum samstarfsnefndar vegna friðlýsingarinnar, síðast á fundi þann 8. apríl síðastliðinn. 

Athugasemdir Landsvirkjunar vegna málsmeðferðarinnar sem bárust fyrst í gær eru þær að fyrirtækinu hafi ekki borist upplýsingar um afstöðu til athugasemda þess og að nauðsynlegt sé að fyrir liggi samþykki Landsvirkjunar eigi að friðlýsa á grundvelli 58. gr. náttúruverndarlaga. Sjá meðfylgjandi erindi Landsvirkjunar. 

Umhverfisstofnun hefur lagt ríka áherslu á að vanda undirbúning friðlýsingarinnar og eiga gott samráð við alla hagsmunaaðila sem að málinu koma eins og sveitarfélög og Landsvirkjun. Ráðuneytið og Umhverfisstofnun telja því mikilvægt að fara yfir þær athugasemdir Landsvirkjunar sem varða tiltekna þætti í undirbúningi friðlýsingarinnar. Því hefur Umhverfisstofnun, að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið ákveðið að fresta fyrirhugaðri undirritun á stækkuðu friðlandi Þjórsárvera þar til búið er að fara yfir framangreindar athugasemdir í samráði við hlutaðeigandi aðila.