Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Hreindýraveiðimenn þurfa að standast verklegt skotpróf í síðasta lagi sunnudaginn 30. júní og hætt við að mikið álag verði næstu daga á skotvöllum landsins. Alls hafa um 700 próf þegar verið tekin en áætlað er að taka þurfi um 700 próf í viðbót. Veiðimenn eru hvattir til þess að fara sem fyrst í skotprófið.

Á sama tíma á síðasta ári höfðu helmingi færri próf verið tekin en nú er og alls voru þá tekin 774 próf síðustu 11 dagana í júní. Á síðasta ári var frestur til að taka prófið framlengdur fram í júlí í ljósi þess hve seint var hægt að byrja á prófunum vegna tafa á útgáfu reglugerðar um skotprófin. Sú staða er ekki uppi nú í ár og verður ekki veittur frestur.

Þeir sem standast ekki skotpróf fyrir næstu mánaðamót fá staðfestingargjald vegna veiðileyfisins ekki endurgreitt.

Um 10% fleiri próf eru staðin þetta árið miðað við 2012. Ennfremur hefur meðalstigagjöf hækkað úr 27 stigum í 30 stig. Veiðimenn eru því að koma betur út úr skotprófunum nú á þessu öðru ári prófsins bæði hvað varðar niðurstöðu prófa og hittni.