Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Helgina 5 – 7 júlí verður haldin sannkölluð barnahelgi í Vatnsfirði. Boðið verður upp á sögustundir, náttúruskoðun fyrir börn, ratleik og lautarferð. Þá verður einnig farið í fjölskyldugöngur í Surtarbrandsgil. Landverðir verða með fjölbreytta fræðslu um sögu og náttúru friðlandsins í Vatnsfirði og fara í skemmtilega leiki með krökkunum.

Dagskrá:

Föstudagurinn 5. júlí 

Klukkan 16:00-17:30: Náttúruskoðun með landvörðum í kjarrinu og fjörunni í kringum Hótel Flókalund fyrir hressa krakka 6 ára og eldri. Landverðir hittir krakkana á tjaldsvæðinu fyrir neðan Hótel Flókalund. Genginn verður í fjörunni upp að fjörupottinum. Á leiðinni verður leitað að litlum sæskrímslum og verður borin kennsl á alla fugla sem verða á vegi okkar. Svo verður fylgt göngustíg í gegnum kjarrið bak við hótelið þar sem blómahandbókin sem landverðir hafa meðferðis mun koma að góðu gagni. Leiðin endar á efra tjaldsvæðinu, en þar verður sest og spjallað um allt sem fyrir augum bar. Foreldrar eru beðnir um að sækja börnin þar að lokinni ferð.

Laugardagurinn 6. júlí

Klukkan 15:00-16:00: Sögustund við Gíslahelli. Hittingur á bílastæðinu í Hörgsnesi. Gísli Súrsson var kappi mikill sem var dæmdur í útlegð fyrir afbrot. Hann var á flótta í 14 ár og dvaldi meðal annars í nágrenni Vatnsfjarðar. Eftir honum er nefndur hellir í Hörgsnesi en talið er að hann hafi falið sig þar fyrir óvinum sínum. Auk þess að heyra af ævintýrum hans fá allir krakkar sem koma að skríða ofan í Gíslahellir sem er lítil og óvistleg hola, en mjög góður felustaður. Landverðir skaffa vasaljós, en ekki er verra að koma með sitt eigið.

  • Í fylgd með foreldrum

Klukkan 17:00-18:00: Ratleikur! Hittingur við Hótel Flókalund. Hressir krakkar á öllum aldri fá að spreyta sig í að leysa gátur og lesa fróðleik um svæðið. Sett verða upp ílát á vel völdum stöðum í grennd við hótelið. Hver vísbending leiðir mann að næsta stað og fá krakkarnir samtímis að fræðast um atburði sem gerst hafa í friðlandinu. Foreldrar, ömmur, afar, frænkur og frændur eru hvattir til að vera með.

Sunnudagurinn 7. júlí

Klukkan 15:00: Lautarferð við Lómatjörn. Fjölskyldur og börn á öllum aldri eru hvött til að koma og njóta sín í einstöku umhverfi Vatnsdalsvatns. Takið með ykkur teppi, nesti (kíkir og fuglahandbók ef þið eigið) og góða skapið. Landverðir verða við Lómatjörn og segir frá fuglalífinu og fara í skemmtilega leiki með krökkunum. Við Lómatjörn og Vatnsdalsvatn er fjölbreytt fuglalíf og kjörið að njóta þess að fylgjast þar með t.d. himbrima, Lóm, toppönd, kríu og hver veit nema við komum auga á ránfugl í klettunum. Landverðir verða á svæðinu með kíki og fuglahandbók og mun einnig fara í skemmtilega leiki með krökkunum.

  • Í fylgd með foreldrum

Laugardagurinn 6. og sunnudagurinn 7. júlí

Klukkan 11:00-13:00: Surtabrandsgil. Farið verður í fjölskylduferðir upp í Surtarbrandsgil laugardag og sunnudag. Í gilinu er að finna sönnun þessa að fyrir um 11 miljón árum síðan var náttúra Íslands allt öðruvísi en hún er í dag. Mæting fyrir framan Flakkarann (Farmiðasölu í ferjuna Baldur).

  • Í fylgd með foreldrum
Mikilvægt er að allir klæði sig eftir veðri og séu í góðum skóm. Landverðir skaffa blóma- og fuglahandbókina ásamt kíki. Þó er ekki verra að koma með sín eigin tól, svo sem handbækur, kíki eða stækkunargler.