Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Tilgangur tilskipunar um raf- og rafeindatækjaúrgang er að vernda og bæta umhverfið en raf- og rafeindatæki innihalda ýmis efni sem geta verið skaðleg heilsu manna og umhverfi. Þess vegna hafa verið sett fram markmið um að auka endurnotkun og endurvinnslu raf- og rafeindatækja. Innflytjendur og framleiðendur raf- og rafeindatækja bera framleiðendaábyrgð á réttri úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs, en bannað er að urða ómeðhöndlaðan úrgang. Einn liður í eftirfylgni með framleiðendaábyrgð felur í sér breytingar á tollafgreiðslu. 

Breytt fyrirkomulag við innflutning er samkvæmt reglugerð nr. 1104/2008 um raf- og rafeindatækjaúrgang með síðari breytingum sem byggir á tilskipun Evrópuþings 2002/96/EC um raf- og rafeindatækjaúrgang (WEEE).

Þann 1. september tekur í gildi breyting við tollafgreiðslu vegna innflutnings á raf- og rafeindatækjum. Frá og með 1. september verður að fylla út í reit nr. 14 á tollskýrslu fyrir innflutning raf- og rafeindatækja í tilteknum tollflokkum, og gildir það fyrir einstaklinga og fyrirtæki, hvort sem innflutningur er í atvinnuskyni eða ekki. Vara fæst ekki tollafgreidd ef reitur nr. 14 á tollskýrslu er auður eftir 1. september.

Þrjár leiðir eru til útfyllingar á reitnum.

Einstaklingar

  • Einstaklingar, sem eru ekki að flytja inn í atvinnuskyni og innflutningsvaran fellur undir skilgreiningu á raf- og rafeindatæki, setja leyfistilvísunina EINKANT í reit nr. 14 á tollskýrslu ásamt leyfislyklinum LRT.
                    Dæmi: LRT EINKANT

Fyrirtæki og einstaklingar

  • Falli innflutningsvara ekki undir skilgreiningu á raf- og rafeindatæki, hvort sem innflutningur er í atvinnuskyni eða ekki, setur innflytjandi leyfistilvísunina EKKIRAF í reit nr. 14 á tollskýrslu ásamt leyfislyklinum LRT.
                    Dæmi: LRT EKKIRAF 
  • Falli innflutningsvara undir skilgreiningu á raf- og rafeindatæki og innflutningur er í atvinnuskyni skal skrá leyfisnúmer viðkomandi innflytjanda í reit nr. 14 á tollskýrslu ásamt leyfislyklinum LRT.
                    Dæmi fyrir aðila að RR-skilum: LRT RR12345
                    Dæmi fyrir aðila að Samskilum: LRT SS12345

Ef flytja á inn raf- eða rafeindatæki í atvinnuskyni, sem fellur undir skilgreiningu á raf- og rafeindatæki, þarf innflytjandi að vera aðili að skilakerfi og þarf einnig að vera skráður í skráningarkerfi hjá Umhverfisstofnun. Hægt er að fela því skilakerfi sem innflytjandi er aðili að, að sjá um skráningu í skráningarkerfið. Tvö skilakerfi eru starfandi í dag, RR-skil (rrskil.is) og Samskil (samskil.is). Skráningarkerfið á að halda utan um upplýsingar varðandi þá framleiðendur og innflytjendur sem setja raf- og rafeindatæki á markað hér á landi. Við skráningu úthlutar Umhverfisstofnun leyfisnúmeri til að setja í reit nr. 14 á tollskýrslu.

Nánari upplýsingar má finna á vef Umhverfisstofnunar og hjá Hafdísi Ingvarsdóttur í síma 591-2000.