Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Fuglar
Veiðitímabil á grágæs og heiðagæs hefst 20. ágúst og stendur til 15. mars. Varpið hófst fremur seint í ár og því er upphafi veiðinnar seinkað á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs til 1. september. Algengt er að veiðimenn bíði með gæsaveiði þar til í september ekki síst í ljósi þess að þá er einnig heimilt að hefja veiðar á þeim andategundum sem veiddar eru. Fjöldi veiðimanna fer hinsvegar til veiða fyrstu dagana, sérstaklega þeir sem veiða heiðagæsir. 

Grágæs og heiðagæs hefur fjölgað á undanförnum árum samkvæmt talningum og hækkandi veiðitölur endurspegla gott ástand á gæsastofnum. Veiðimenn eru minntir á að óheimilt er að skjóta ófleyga fugla og hafa ber í huga að búast má við ófleygum gæsaungum á fyrstu dögum veiðitímabilsins. Veiðimenn eru ennfremur minntir á alfriðun blesgæsar en hún hefur verið friðuð síðan 2003 og að ekki er heimilt að hefja veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum fyrr en 25. september.