Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Útstreymi díoxíns hefur dregist saman um 90% frá árinu 1990. Losunin hefur verið nokkuð stöðug frá 2004, frá 1,6 upp í 2,4 g I-TEQ á ári. Losunin árið 2011 er metin sú minnsta á tímabilinu eða um 1,3 g I-TEQ.

Losun díoxíns árið 1990 var um 12,6 g I-TEQ og hefur því minnkað um 11,3 g I-TEQ á ársgrundvelli á tímabilinu. Megin ástæða þess að mun minna er losað af díoxíni er sú að opnum brennslum fyrir úrgang var lokað. Þeim fækkaði hratt á tímabilinu og var þeirri síðustu lokað árið 2010. Þá voru hertar kröfur gerðar árið 2000 til sorpbrennslu í Evrópu sem Ísland fékk undanþágu frá en undanþágan féll úr gildi um síðustu áramót. Í kjölfarið af fyrirsjáanlega hertum reglum var nokkrum brennslustöðvum lokað á síðustu árum. Aukna losunin árin 2008 til 2010, borið saman við árin 2005 til 2007 má rekja til bilunar í hreinsibúnaði sorpbrennslustöðvar Funa á Ísafirði. Funa var lokað í ársbyrjun 2011. Einnig hafa verið gerðar meiri kröfur til áramótabrenna frá árinu 2000 og losun frá þeim dregist saman.

Stærstur hluti losunar díoxíns árið 2011 kemur til vegna fiskveiða eða um helmingur hennar. Losun vegna fiskveiða hefur haldist nokkuð stöðug á tímabilinu en er nokkuð lægri en í byrjun tímabilsins. Hlutfallslega er losun díoxíns á sjó meiri en á landi þar sem meira salt (og þar með klór) fer í gegnum vélarnar. Næst á eftir kemur losun vegna sorpbrennslu með um 31%. Losun frá brennslu úrgangs hefur hins vegar dregist saman um 95%. Hérlendis er hverfandi losun díoxíns vegna rafmagnsframleiðslu og hitaveitu en sá þáttur vegur víða erlendis nokkuð þungt. Losun vegna iðnaðar hefur aukist um 159% frá 1990, en er þó aðeins 3% af heildarlosuninni.

 

Ár Samgöngur  Fiskveiðar  Iðnaður  Sorpbrennsla
(með/án orkuvinnslu) 
Brennur  Eldar af slysni  Annað útstreymi  Alls 
1990 0.2 0.8  0.02  8.8  2.6  0.1  0.02  12.6 
1991
0.2 0.9  0.01  8.7  2.6  0.1  0.02  12.5 
1992 0.2 0.9  0.01  8.4  2.6  0.1  0.02  12.2 
1993 0.2 1.0  0.02  7.5  2.5  0.1  0.03  11.3 
1994 0.1 1.0  0.01  6.8  2.4  0.1  0.01  10.5 
1995 0.1 1.0 0.02  5.8  2.3  0.1  0.01  9.3 
1996 0.1 1.0 0.02  5.1 2.0  0.1  0.01  8.3 
1997 0.0 1.0  0.02  4.9  1.6  0.1  0.01  7.7 
1998 0.0 1.0  0.02  4.0  1.3  0.1  0.01  6.4 
1999 0.0 1.0  0.02  3.1  1.0  0.1  0.01  5.2 
2000 0.0 0.9  0.03  2.7  0.9  0.1  0.01  4.7 
2001 0.0 0.8  0.03  2.4  0.5  0.1  0.01  4.0 
2002 0.0 0.9  0.03  2.2  0.3  0.1  0.01  3.6 
2003 0.1 0.8  0.03  1.7  0.3  0.1  0.01  2.9 
2004 0.1 0.8  0.03  1.0  0.1  0.2  0.01  2.3 
2005 0.0 0.8  0.03  0.5 0.1  0.1  0.01  1.6 
2006 0.1 0.7  0.03  0.6  0.1  0.1  0.01  1.7 
2007 0.1 0.7  0.04  0.7  0.1  0.1  0.01  1.7 
2008 0.1 0.7  0.04  1.4  0.1  0.1  0.01  2.4 
2009 0.1 0.7  0.04  1.1  0.1  0.1  0.01  2.2 
2010 0.1 0.7  0.04  1.1  0.1  0.1  0.01  2.1 
2011 0.0 0.6  0.04  0.4  0.1  0.1  0.01  1.3 
Breyting
1990 - 2011
-83%  -24%  159%  -95%  -96%  -31%  -77%  -90% 
 

Um díoxín

Díoxín er meðal eitruðustu efna sem finnast í umhverfi okkar og hafa margvísleg neikvæð áhrif á menn og dýr, jafnvel í mjög lágum styrk. Þau eru talin geta veikt ónæmiskerfið, valdið hormónaójafnvægi, fósturskaða og krabbameini. Díoxín er þrávirkt lífrænt efni sem myndast sem aukaafurð í ýmsum ferlum, en er hvorki framleitt viljandi né nýtt á nokkurn hátt. Vegna þess eiginleika að bindast fituvef safnast díoxín upp í náttúrunni.

Í raun er díoxín ekki eitt efni heldur hópur miseitraðra efna. Þegar talað er um styrk díoxíns er yfirleitt átt við samanlagðan heildarstyrk, umreiknaðan í svokölluð „alþjóðleg eitrunarjafngildi“ (I-Teq - „International Toxic Equivalents“). Þá er með öðrum orðum búið að umreikna eitrunaráhrif allra efnanna eins og um eitraðasta efnið væri að ræða.

Tengt efni

Informative Inventory Report 2013 (PDF, 3,5 MB)