Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Alex Geasley

Síðastliðið sumar fengu sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar tækifæri til að vinna við nýtt verkefni í náttúruvernd: Við gíg Eldfells á Heimaey, Vestmannaeyjum. 

Gígurinn er ekki friðlýst svæði en hefur reynst vera mikið aðdráttarafl ferðamanna og mikilvægur bæði jarðfræðilega og sögulega. Í ár eru 40 ár liðin frá eldgosi sem breytti landslagi Heimaeyjar, stærstu eyjar klasans. 

Eldfell byrjaði að gjósa 23. janúar 1973 og um 400 heimili í nágrenni fjallsins eyðilögðust. Eldgosið olli því að flytja varð alla íbúa eyjarinnar á brott á einni nóttu. 

Umhverfisstofnun fékk beiðni frá bæjarstjórn Vestmannaeyja um samvinnu við að hanna og koma upp göngustígakerfi á Eldfelli. Einn af reyndustu liðsstjórum sjálfboðaliðastarfsins, Roger Whysall og umsjónarmaður Sjálfboðaliða Umhverfisstofnunar, René Biasone, heimsóttu Heimaey og fengu leiðsögn Bjarna Ólafs Marinóssonar. Saman skilgreindu þeir verkefnið í smáatriðum (staðsetningu göngustíga, slóða sem loka þarf, girðingar- og göngustígaefni og tækni til að endurheimta landslag). Sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnun fóru strax tveim vikum seinna, í ágúst, til Vestmannaeyja. Unnið var undir stjórn Roger Whysall og var sú vinna mjög árangursrík. 

Stofnunin vill koma á framfæri þakklæti til Sigurðar Smára Benónýssonar í bæjarstjórn Vestmannaeyja, fyrir frumkvæði hans, og til sjálfboðaliða Umhverfisstofnunar fyrir dýrmæta vinnu þeirra á Eldfelli.


Sjálfboðaliðar við Eldfell á Heimaey