Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Ný efnalög tóku gildi í apríl 2013 og hefur Umhverfisstofnun haldið kynningarfundi um þau fyrir hagsmunaaðila sem hafa tekist með ágætum. Eitt af gildum stofnunarinnar er samvinna sem er afar mikilvæg við framkvæmd efnalaga því þar dreifist ábyrgðin á nokkur stjórnvöld. 

Í lögunum kemur m.a. fram að eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar sé að „upplýsa heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, Vinnueftirlit ríkisins, tollstjóra, Neytendastofu, slökkvilið og önnur stjórnvöld um þá þætti sem sem falla undir lögin og hlutaðeigandi stjórnvöld hafa þörf á til að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögunum“. 

Umhverfisstofnun hefur nú haldið 5 kynningarfundi um efnalögin: 

  • 13. júní: Fyrir heilbrigðisnefndir og –eftirlit sveitarfélaga
  • 10. sept. Fyrir Vinnueftirlit ríkisins 
  • 12. sept: Fyrir Neytendastofu og Eitrunarmiðstöð Landspítalans
  • 19. sept: Fyrir Mannvirkjastofnun og slökkviliðin 
  • 24. sept: Fyrir embætti tollstjóra 

Á fundunum var farið yfir efnalögin og nýmæli í þeim skoðuð sérstaklega. Þá voru skipuritsbreytingar á Umhverfisstofnun kynntar stuttlega, sem og efnateymi stofnunarinnar. Því næst var farið yfir hlutverk hlutaðeigandi stjórnvalds skv. efnalögum og opnað fyrir umræður sem reyndust bæði góðar og gagnlegar. Var það mál manna að góð og opin samskipti á milli stofnanna í þessum málaflokki væru mjög mikilvæg til að stuðla að skilvirkri framkvæmd efnalöggjafarinnar.