Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Fyrirhugað er að takmarka innihald fosfata í þvottaefnum til heimilisnota með breytingu á reglugerð nr. 708/2008. Með breytingunni verður hámarksinnihald fosfata í tauþvottaefnum 0,5 g af fosfór* (fosföt, fjölfosföt og fosfónöt) í ráðlögðum skammti sem ætlaður er til notkunar í hörðu vatni miðað við staðalþvott. Miðað við algengan skammt af þvottaefni eins og hér er lýst er (110 g) væri hámarksstyrkur fosfórs í vöru 0,44%. 

Sambærileg breyting fyrir uppþvottavélaefni til heimilisnota er ætlað að taka gildi 1. janúar 2017 þar sem viðmiðið er 0,3 g af fosfór* í ráðlögðum skammti. Þá er fyrirhugað að setja hliðstæðar reglur um merkingar á skammtastærðum uppþvottavélaefna og eru fyrir tauþvottaefni. Frestur til að skila umsögnum um fyrirhugaða reglugerðarbreytingu er til 10. desember 2013. Áætlað er að þessi breyting taki gildi frá og með næstu áramótum. 

Fyrirhuguð breyting kemur ekki í veg fyrir að fosfónöt verði notuð í örlitlu magni svo að staðgengilsefni fosfatanna virki betur. Notkun fosfata verður leyfð áfram í uppþvottavélaefni og þvottaefni fyrir sérstök þvottahús eins og á vegum stofnana á meðan að ekki hafa komið fram hentug og hagkvæm staðgengilsefni eða aðferðir sem gefa jafn góða raun. Þegar og ef það gerist má reikna með að fosföt verði alfarið bönnuð í þvottaefnum. 

Fosföt eru notuð í þvottaefnum til að mýkja þvottavatnið með því að draga úr áhrifum salta sem auka hörku vatns. Þá bindast fosföt afar vel við óhreinindi og sjá til þess að þau blandist við þvottavatnið. Vegna mýktar íslenska vatnsins er ekki sama þörf fyrir fosföt í þvottaefnum fyrir íslenskan markað. Önnur efni hafa nú komið í staðinn sem gera sama gagn án þess að hafa sömu umhverfisáhrif. 

Tilgangurinn með þessari aðgerð er að draga úr magni fosfata sem berst í sjó og vötn með frárennslisvatni. Fosfór og efnasambönd þess á borð við fosföt gegna mikilvægu hlutverki sem næringarefni ljóstillífandi lífvera á borð við þörunga. Ofauðgun næringarefna og þá sérstaklega fosfata og nítrata veldur ofvexti nokkurra þörungategunda og röskun á jafnvægi í náttúrunni. Það hefur víða valdið umhverfisspjöllum sem lýsa sér m.a. í því að sjór og vötn geta orðið snauð af súrefni þar sem mikil rotnun þörunga á sér stað á hafsbotni. Á undanförnum árum hefur komið í ljós að vægi fosfata í þessu sambandi er meira en áður var talið. Þetta er hins vegar ekki vandamál allsstaðar og t.d. ekki í hafinu í kringum Ísland aðallega vegna fámennis, hve vel sjórinn nær að blandast og lítillar sólargeislunar. Þetta er hins vegar stórt vandamál í nokkrum Evrópuríkjum, sérstaklega hinum landluktu en einnig á hafsvæðum þar sem lítil blöndun á sér stað eins og sumstaðar á Eystrasalti, Miðjarðarhafi. Dregið hefur úr losun fosfata í sjó með betri skólphreinsun en sú leið er ekki fær alls staðar og við því er brugðist nú. Framlag fosfata í áburði er mun meira en ekki þykir raunhæft að grípa til hliðstæðra aðgerða í því sambandi. 

Reglugerðin er til innleiðingar á reglugerð (ESB) nr. 259/2012 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 648/2004 að því er varðar notkun fosfata og annarra fosfórefnasambanda í þvottaefni og uppþvottavélaefni fyrir neytendur. 

Aðgerðir þessar eru einnig liður í því að vernda og endurheimta, þar sem við á, gæði yfirborðsvatns. Með þessum aðgerðum verða jafnframt til samræmdar reglur á Evrópska efnahagssvæðinu um fosföt í þvottaefnum. 

* 2% pentanatríum trípólýfosfat (STPP) er u.þ.b. 0,5% fosfór.