Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Þriðjudaginn 2. október 2012 upplýsti Alcoa Fjarðaál Umhverfisstofnun um að frumniðurstöður greininga á styrk flúors í grasi í Reyðarfirði hafi sýnt hækkuð gildi miðað við undanfarin ár. Umhverfisstofnun fór yfir gögnin og sendi tilkynningu á fjölmiðla þess efnis þann 5. október í samræmi við verklag. Strax í vikunni á eftir var farið í eftirlit til Alcoa þar sem farið var yfir stöðuna. Í því eftirliti komu fram þrjú frávik frá starfsleyfi sem greint var frá í eftirlitsskýrslu og úrbóta krafist. Stofnunin óskaði greinargerða frá Alcoa og MAST vegna málsins. Þann 26. október var opnuð sérstök upplýsingasíða þar sem birt voru öll gögn sem málið varðaði, s.s. bréf, umsagnir og mælingar. Umhverfisstofnun lauk athugun sinni og eftirfylgni vegna þeirra frávika sem komu fram á árinu 2012 í maí 2013. Þá hafði Alcoa bætt mælingar og dregið úr losun á flúor frá álverinu í samræmi við kröfur í starfsleyfi. Í bréfi til Alcoa af því tilefni var farið fram á ítarlegri vöktun á svæðinu vegna hækkaðra gilda á flúor. Sumarið 2013 voru tekin sýni í grasi og farið yfir þau á tveggja vikna fresti á fundum með fulltrúum Alcoa og MAST. Mælingar sýndu að gildi fóru ekki yfir viðmiðunarmörk hvað varðar heilfóður fyrir grasbíta. Meðaltal mælinga fyrir sumarið var um 38 ug/kg þurrvigt en viðmiðunarmörk eru 40 µg/g (miðað við 12% rakainnihald). Í meðfylgjandi töflu má sjá meðaltöl mælinga á flúor í grasi utan þynningarsvæðis í Reyðarfirði frá 2004.

2004  2005  2007 2008  2009  2010  2011  2012  2013 
 3 22  25  31  12  52 38 

Ársmeðaltal flúors í Reyðarfirði í grassýnum utan þynningarsvæðis (µg/g þurrvigt). 

Til samanburðar má nefna að meðaltalsstyrkur flúors norðan megin í Hvalfirði í nágrenni iðjuvera á Grundartanga hefur ekki mælst yfir 20 µg/g frá því mælingar hófust. Hæstu einstöku gildi sem þar hafa mælst (ein mæling 2006 sem var 45 µg/g) eru lægri en meðaltalsstyrkur í Reyðarfirði árið 2012. Líkur má leiða að því að staðbundnar aðstæður og veðurfar ráði þónokkru þar um. 

Athuganir á grasbítum í Reyðarfirði benda ekki til eitrunaráhrifa vegna flúormengunar en áfram verður fylgst með heilsu dýra og sýni tekin. Athuganir á veikindum langlífra grasbíta í Hvalfirði benda ekki til áhrifa flúors að mati Matvælastofnunar. 

Ástæða þess að fylgst er náið með flúor í nágrenni álvera er að flúor getur haft áhrif á vöxt beina og tanna í grasbítum. Þá geta grasbítar orðið fyrir eitrunaráhrifum ef gildi verða mjög há eins og þekkt er í eldgosum. Ekki er talin hætta fyrir menn af flúormengun og óhætt að neyta afurða af dýrum sem mælast með hátt flúor. Markmiðið með kröfum um losun flúors eru til þess að tryggja dýravelferð og hagsmuni landbúnaðar. 

Í nóvember 2013 var sérstakri upplýsingasíðu lokað en upplýsingar sem varða eftirlitið (ásamt efni af sérstöku upplýsingasíðunni) áfram aðgengileg á síðu um eftirlit með álveri Alcoa í Reyðarfirði. Þar má t.d. nálgast upplýsingar um mælingar sumarsins 2013. Umhverfisstofnun heldur úti síðum um öll þau fyrirtæki sem eru undir eftirliti stofnunarinnar, hvar birtar eru eftirlitsskýrslur, mæligögn og upplýsingar um beitingu þvingunarúrræða. 

Umhverfisstofnun mun áfram fylgjast náið með þróun mála í Reyðarfirði enda ljóst að gildi á flúor eru þar hærri en í kringum önnur álver hérlendis. Meðaltalsgildið fór yfir viðmiðunarmörk árið 2012 og nálægt viðmiðunarmörkum árin 2010 og 2013. Starfsleyfi á að endurskoða reglulega og hefur Umhverfisstofnun heimildir til að endurskoða einstök ákvæði þyki ástæða til. Vinna stendur yfir af hálfu atvinnuvegaráðuneytisins hvað varðar áhrif flúors á langlífa grasbíta og er niðurstöðu að vænta. 

Um mælingar á flúor

Flúor er mældur með margvíslegum hætti og þarf að taka mið af aðstæðum á hverjum stað hvað það varðar, t.d.: 

  • Í útblæstri frá álverum (hreinsivirki og rjáfri) 
  • Í svifryki utan álvers 
  • Í heyi og grasi 
  • Í grasbítum 
  • Mosa,fléttum og bláberjalyngi 
  • Blöðum reynitrjáa og barrnálum 
  • Rabarbara 
  • Kartöflum 
  • Bláberjum og krækiberjum 

Ástæða þess að mælingar eru gerðar á svo mörgum stöðum er til að tryggja að upplýsingar um raunverulega uppsöfnun komi fram. Bili mælar í álveri til dæmis má eftir sem áður greina stöðuna út frá sýnum í gróðri. Undanfarin ár hefur Umhverfisstofnun gert auknar kröfur um vöktun vegna flúors í nágrenni álvera á Grundartanga og í Reyðarfirði. Ástæður þess að vöktun er meiri í Reyðarfirði eru að þar varð mengunaróhapp 2012, meðaltalsstyrkur fór þá yfir viðmiðunarmörk og að meðaltali hefur styrkur þar mælst talsvert hærri en í Hvalfirði. 

Mælingar hjá mengandi fyrirtækjum eru gerðar með ýmsum hætti. Sumar mælingar eru gerðar af sjálfvirkum mælingarbúnaði sem er kvarðaður skv. stöðlum. Aðrar mælingar eru gerðar af opinberum aðilum, s.s. Nýsköpunarmiðstöð, Náttúrufræðistofnun Íslands, Matvælastofnun eða Náttúrustofum víða um land, s.s. sýnataka og mat á sjúkdómum dýra. Þá eru aðrar mælingar framkvæmdar af verkfræðistofum. Þetta verklag er sambærilegt því sem þekkist í öðrum löndum með sams konar regluverk og hérlendis. 

Eftirlit með mengandi starfsemi

Umhverfisstofnun hefur frá árinu 2008 hert eftirlit sitt og breytt verklagi hvað það varðar. Árið 2011 var fyrsta heila árið þar sem allar þær breytingar voru komnar til framkvæmda að fullu. Frávik eru betur skráð, þeim er öllum fylgt eftir og þvingunarúrræðum beitt. Þá höfum við fjölgað fyrirvaralausum eftirlitsferðum. Meðfylgjandi mynd sýnir að fyrir þær breytingar var þvingunarúrræðum, s.s. áminningum, sjaldan beitt. Frávikum milli ársins 2011 og 2012 fækkar um 25% sem bendir til þess að þær breytingar sem ráðist var í, þar á meðal markvissari beiting þvingunarúrræða, séu að skila árangri.

Viðmið um losun mengandi efna hérlendis byggja að langstærstum hluta á samevrópsku regluverki. Eftirlit og starfsleyfisútgáfa Umhverfisstofnunar var yfirfarin af IMPEL (samstarf stofnana í Evrópu um innleiðingu og eftirfylgni umhverfislöggjafar) í ágúst 2012. Meginniðurstöðurnar voru þær að uppbygging og framkvæmd eftirlitsins hérlendis sé sambærilegt því sem gerist í Evrópu og uppfyllir lágmarksviðmið. 

Fylgstu með eftirlitinu

Á umhverfisstofnun.is er hægt að skoða allar eftirlitsskýrslur og ýmis gögn sem tengjast þeim fyrirtækjum sem eru undir eftirliti. Hvert fyrirtæki er með sérstaka síðu þar sem birtar eru eftirlitsskýrslur, bréf vegna beitingu þvingunarúrræða, mælingar og fleira tengt. Hægt er að skoða yfirlit yfir fyrirtækin á korti af Íslandi þannig að auðvelt sé að finna fyrirtæki hvar sem er á landinu. 

Í gæðakerfi stofnunarinnar (sem er ISO 9001 vottað) er nú verkferli um hvenær og með hvaða hætti upplýsingum um losun mengandi efna skuli komið á framfæri við almenning. Alltaf þegar fyrirtæki er áminnt fyrir að standast ekki kröfur um losun mengandi efna (eða hefur ekki skilað inn gögnum til þess að skera úr um hvort starfsemin sé innan marka) er sett frétt á umhverfisstofnun.is þess efnis sem og send fjölmiðlum. 

Í yfirferð IMPEL á eftirliti stofnunarinnar kom fram að upplýsingamiðlun sé til fyrirmyndar og leiðandi í Evrópu. 

 Tengt efni