Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Kristinn Már Ársælsson

Umhverfisstofnun hefur gefið út endurnýjað starfsleyfi fyrir urðunarstað Skaftárhrepps á Stjórnarsandi. Starfsleyfið veitir rekstraraðila heimild til að taka á móti allt að 200 tonnum af úrgangi á ári til urðunar, kurlunar og geymslu. Einungis er heimilt að urða úrgang sem á uppruna sinn í Skaftárhreppi. 

Umhverfisstofnun auglýsti opinberlega tillögu að starfsleyfi á tímabilinu 22. júní – 17. ágúst 2012. Útgáfu leyfisins var síðan frestað, annars vegar til að fá niðurstöður úr mengunarmælingum á mengunarþáttum í tveimur mælibrunnum neðan staðarins og hins vegar vegna stöðu mats á umhverfisáhrifum og vegna vinnu við breytingu á deiliskipulagi á svæðinu. Sjá nánar í greinargerð sem fylgir með útgáfu starfsleyfisins. 

Ein athugasemd barst á auglýsingartímanum. Þar var gerð athugasemd við umfang leyfisins, eignarhald á landareignum á Stjórnarsandi og hins vegar mengun sem hugsanlega bærist frá staðnum. 

Í niðurstöðu Umhverfisstofnunar kemur fram að leyfilegt heildarmagn sem taka má á móti á staðnum breytist ekki í nýju leyfi, þá eru ekki merki um mengun frá staðnum í nýlegum mengunarmælingum og það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að breyting sú sem verður á framkvæmdinni á staðnum, það er að urða heimilsúrgang í stað ösku frá brennslu, mun ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Hvað varðar eignarhald á landareigninni, þá hefur það ekki áhrif á útgáfu leyfisins þar sem auglýst og staðfest deiliskipulag gerir ráð fyrir urðunarstaðnum á þessu svæði. 

Nánar er fjallað um niðurstöðu Umhverfisstofnunar í meðfylgjandi greinargerð.

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 27. nóvember 2029. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með starfseminni og hægt er að öðlast upplýsingar um eftirlitið á heimasíðu Umhverfisstofnunar.