Stök frétt

Mynd: micheile dot com á Unsplash

Ríkiskaup, ásamt umhverfisráðuneytinu, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélögum hafa unnið að því, síðan vorið 2003, að innleiða vistvæn innkaup á Íslandi. Fyrsti áfangi verkefnisins fólst í kynningu og námskeiðshaldi um vistvæn innkaup.

Annar áfangi verkefnisins er nú hafinn en hann felst í því að útbúa stöðluð umhverfisskilyrði sem opinberir aðilar og þau fyrirtæki sem þess óska geta notað við innkaup á vöru og þjónustu. Stuðst var við umhverfisskilyrði sem grannar okkar á norðurlöndunum nota. Skilyrðin eru því að miklu leyti samræmd á norðurlöndunum sem ætti að skapa hagræði fyrir söluaðila og birgja hér á landi.

Verkefninu er stýrt af fulltrúum Ríkiskaupa, Reykjavíkurborg og umhverfisráðuneytisins. Stýrihópurinn ber ábyrgð á skilyrðunum en Umhverfisstofnun hefur umsjón með birtingu umhverfisskilyrða og aðlögun þeirra að íslenskum aðstæðum.

Drög að fyrstu umhverfisskilyrðunum (efnavörur) eru nú tilbúin og eru þau birt hér til kynningar.

Umhverfisskilyrði fyrir  fjóra til sex vöruflokka í viðbót eru í bígerð og er gert ráð fyrir að þau verði kynnt í mars eða apríl á næsta ári.