Stök frétt

Plastmerkingar umbúða þar sem bæði númer og skammstöfun plasttegundar kemur fram.

Um 30% plastumbúða utan um íslenskar mat- og hreinlætisvörur bera skyldubundið merki sem segir til um plasttegund umbúðar. Þetta er niðurstaða könnunar sem gerð var á vegum Umhverfisstofnunar í júlí sl. Rétt merking er nauðsynleg fyrir skilvirka flokkun og endurvinnslu plastsins. Sambærilegar kannanir voru gerðar á árunum 2013 og 2015 þar sem merkingar á vörum frá bæði innlendum og erlendum framleiðendum voru kannaðar. Í þeim könnunum kom í ljós að innlend framleiðsla væri sjaldnar merkt en sú erlenda og því væri meiri þörf á að minna innlenda framleiðendur á skyldur sínar. Þess vegna voru plastumbúðir frá íslenskum framleiðendum aðeins kannaðar í ár.

Athygli vakti í könnuninni að einungis 3% plastumbúða utan um kjötvörur og fisk voru merktar rétt en í svipaðri könnun á síðasta ári voru 89% kjötvara rétt merktar. Ástæðan er sú að í könnunni í fyrra voru einungis skoðaðar kjötvörur í bökkum en í ár var engin áhersla lögð á kjötvörur og fisk í bökkum og því er könnunin í ár ólík þeirri könnun. Þá voru flestir plastpokar sem innihéldu hnetur og þurrkaða ávexti ómerktir. Niðurstaða könnunarinnar kom best út fyrir sælgæti og súkkulaði þrátt fyrir að einungis 34% þeirra plastumbúða væru merktar. Ljóst er að enn vantar töluvert upp á að íslenskir framleiðendur uppfylli skyldur sínar til að merkja umbúðir með plastmerkingum.

Hægt er að nálgast niðurstöður könnunarinnar hér.