Flatey á Breiðafirði

Flatey á Breiðafirði

Þann 11. ágúst 2021 staðfesti umhverfis- og auðlindaráðherra auglýsingu um stækkun friðlandsins í Flatey á Breiðafirði. 

Með viðbótinni nú er stærð friðlandsins tvöfölduð, í 1,62 km2. Stækkunin er austan marka verndarsvæðis í byggð og nær til eyja, hólma og skerja suður af Flatey. 

Þar sem friðlandið nær í sjó fram tekur friðlýsingin til hafsbotns, lífríkis og vatnsbóls. 

Friðlandið er innan verndarsvæðis Breiðafjarðar sem er verndað með sérlögum.

Kort af friðlýsta svæðinu

Mynd: iSstock

Náttúruperla á Breiðafirði

Flatey er stærst Vestureyja á Breiðafirði og henni tilheyra alls 40 eyjar og hólmar. 

Austurhluti Flateyjar var friðlýstur árið 1975 vegna fuglaverndar. Friðlandið nær yfir austurhluta eyjarinnar ásamt eyjum og hólmum sunnan við Flatey. 

Líffræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil og er þar að finna fjölskrúðugt fuglalíf sem byggist m.a. á fjölbreyttu fæðuframboði, miklum fjörum og takmörkuðu aðgengi rándýra að svæðinu. 

Í Flatey hefur um langt skeið verið náið samspil manns og náttúru þar sem nýting náttúruauðlinda hefur farið fram með sjálfbærni að leiðarljósi. 

Á sumrin er Flatey vinsæll viðkomustaður ferðamanna og þá sérstaklega áhugafólks um fugla og náttúru. 

Fjölskrúðugt fuglalíf

Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í að svæðið er búsvæði og varpsvæði mikilvægra fuglastofna. Þar verpa fuglategundir sem eru sjaldgæfar á landsvísu, á válista og ábyrgðartegundir Íslendinga og til dæmis má þar nefna þórshana, kríu, teistu, lunda og toppskarf. Auk þess er þar mikið æðarvarp. Auk varpfugla hafa margar tegundir viðkomu í Flatey vor og haust, til dæmis margæs og rauðbrystingur

Vísindalegt gildi svæðisins er hátt og er fuglalíf vaktað og rannsakað þar reglulega. Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda lífríki Flateyjar, einkum varp- og búsvæði fugla, tryggja áframhaldandi rannsóknir og vöktun á lífríki eyjunnar ásamt því að fræða gesti um friðlandið og náttúru þess.

Friðlandið er lokað á varptíma fugla og er öll umferð um það óheimil á tímabilinu 15. apríl - 15. júlí.

Tengt efni

Umhverfisstofnun, Reykhólahreppur, framfarafélag Flateyjar og ábúendur vinna nú að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið Flatey. Hér má lesa um framgang þeirrar vinnu.