Steðji (Staupasteinn)

Steðji

Steðji stendur á hól er kallast Skeiðhóll við Hvammsfjall í Hvalfirði.

Steðji var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1974 vegna sérkennilegrar lögunar sinnar.

Friðlýsta svæðið er u.þ.b. 3,2 hektarar að stærð.

Hvað er áhugavert?

Ef horft er til þeirra vistkerfaþjónustna sem náttúruvættið býr yfir þá er einna helst að nefna það upplýsingagildi sem Steðji stendur fyrir. Steðji býr yfir fallegum landslagsþáttum og fjölbreytileika í landslagi sem býður upp á þó nokkra afþreyingarmöguleika. Einnig býr Steðji yfir menningarlegum og listrænum innblæstri en til eru sögusagnir um einbúa sem býr í Steðja og að auki má nefna vísinda- og menntunargildi fyrirbærisins en náttúruvættið hefur að geyma jarðvísindalega sögu ásamt því að vera tilvalið til notkunar fyrir skólaferðir og til vísindarannsókna. 

Náttúruminjar 

Skeiðhóll, sem Steðji stendur í, varð til í tveimur aðskildum áföngum. Eldri og vestari hluti Skeiðhóls er bergbrík úr basalt hraunlögum áþekkum þeim er finnast í neðsta hluta Reynivallahálss á meðan austari og yngri hluti Skeiðhóls hefur myndast fyrir um 10.000 árum síðan.  Á þeim tíma ríkti kaldara loftslag og náði snjór ekki að bráðna yfir sumartímann. Mynduðust þá fannir sem náðu austur á bergstallinn þar sem Skeiðhóll og Steðji eru nú. Austari hluti Skeiðhóls er úr efni sem féll úr fjallinu og valt niður eftir fönninni og staðnæmdist á bergstalli í fjallshlíðinni. Þegar hlýnaði í veðri í upphafi nútíma leysti þessar fannir og í ljós kom aflangur hóll, svokölluð urðarbrík (e. protalus rampart).  Einn af steinunum sem fallið hafa úr hraunlögunum í klettinum er Steðji. Steinninn er tvískiptur og er neðri hluti hans úr rauðleitu, holufylltu gjalli en efri hlutinn úr stuðluðu basalti. Eins og sjá má þá staðnæmast steinar er falla úr klettunum í dag, í skriðunum ofan við Skeiðhól. 

Menningarminjar

Steðji hefur gengið undir mörgum nöfnum t.d. Prestur, Karlinn í Skeiðhól og Staupasteinn. Sögur ganga um að í klettinum búi einbúi sem nefndur er Staupasteinn eftir bústað sínum, og eru til nokkrar sagnir af íbúanum í Steðja. Einbúinn er síðhærður og skeggjaður karl og er honum lýst sem góðlyndum, gamansömum og sérlega barngóðum. Best skemmtir hann sér þegar fjölskyldufólk staldrar nálægt Steðja og krakkar leika sér með bolta á meðan foreldrar njóta útilofts og náttúrufegurðar. Þess má geta að einbúinn Staupasteinn er í dag verndari Hvalfjarðarganganna. Staðurinn var vinsæll áningastaður ferðalanga áður fyrr og hefur hann sett mikinn svip á ferðalög og hugi ferðalanga í gegnum tíðina.  

Aðgengi

Skilti við þjóðveg beinir fólki upp að Steðja. Á svæðinu er að finna lítið bílastæði, fræðsluskilti um náttúruvættið ásamt bekk sem fólk getur sest við og borðað nesti. Það er ekkert því til fyrirstöðu að heimsækja Steðja allt árið um kring.

Gangandi fólki er heimil dvöl á svæðinu en bannað er að breyta náttúruvættinu á nokkurn hátt eða skaða gróður umhverfis það. 

Akstur er aðeins leyfður á vegi og á afmörkuðu bílastæði.

Mannvirkjagerð og jarðrask við náttúruvættið er háð leyfi Umhverfisstofnunar.